143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður getur kannski sagt mér hvað breyttist í olíuverði, verði á rækju og öðru á milli áranna 2008/2009 og 2009/2010. Því verður þó ekki neitað sem stendur í frumvarpinu og ég ítreka það, með leyfi forseta:

„Að líkum má leiða að þessi fréttatilkynning hafi ýtt undir veiðar, en fiskveiðiárið 2009/2010 jukust þær umtalsvert frá fyrra ári.“

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar vegna þess að það er gott hvernig þær eru í frumvarpinu. Hér segir að árið þar á undan hafi aðeins verið veidd 3.200 tonn, rétt tæpur helmingur af veiðiráðgjöf í úthafsrækju það ár.

Það getur vel verið að við fáum í nefndinni upplýsingar um olíuverð, hráefnisverð, afurðaverð og annað milli þessara ára en ég leyfi mér að halda að ekkert voðalega mikið hafi breyst á milli áranna 2008/2009 og 2009/2010 hvað þetta varðar og er þess vegna sammála því sem ráðuneytið segir, að öllum líkindum varð fréttatilkynning þáverandi hæstv. ráðherra til þess að fleiri fóru að veiða.