143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

bílastyrkir lífeyrisþega.

[10:47]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er í annað sinn í þessari viku sem ég ber fram óundirbúna fyrirspurn. Í bæði skiptin hef ég átt í mesta basli með að ákveða hvaða hæstv. ráðherra ég á að spyrja því að málin sem um ræðir skarast og ábyrgðin liggur víða, stundum með mjög sérstökum hætti, og ekki er í boði að spyrja tvo ráðherra í einu á Alþingi. Reyndar liggur ábyrgðin líka hjá forseta Íslands í þessu tilviki sem ég geri ekki ráð fyrir að sitji fyrir svörum hér.

Ég beini spurningu minni til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra en vek athygli á að hún ætti í raun einnig erindi við heilbrigðisráðherra og að mörgu leyti forseta Íslands. Ég verð bara að treysta því að hæstv. ráðherrar velferðarráðuneytisins ræði saman um málið og komist að samkomulagi og við forsetann líka.

Kem ég mér nú að efninu:

Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra síðan í maí 2013 er hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ætlað að bera ábyrgð á málum er varða Tryggingastofnun ríkisins en hæstv. heilbrigðisráðherra er gert að bera ábyrgð á málum er lúta að Sjúkratryggingum Íslands. Málin flækjast þegar kemur að styrkjum til bílakaupa sem lífeyrisþegar með hreyfihömlun geta átt rétt á því að þeir heyra undir Tryggingastofnun ríkisins. Hins vegar heyrir niðurgreiðsla á öllum hjálpartækjum í sömu bíla, sem oft gera það að verkum að hreyfihamlað fólk geti yfir höfuð notað þá, til Sjúkratrygginga Íslands.

Vil ég því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort ekki sé nauðsynlegt að einfalda kerfið og minnka vesenið fyrir umsækjendur sem eru háðir bæði bílunum og hjálpartækjunum til að njóta ferðafrelsis á við ófatlaða borgara sem ekki þurfa sérhannaða bíla og geta auðveldar notað almenningssamgöngur. Það væri til dæmis hægt að gera það með því að skapa heildstæða umgjörð um bifreiðamál hreyfihamlaðra lífeyrisþega sem heyra undir sömu lögin, sömu stofnunina og sama ráðherrann, annað en þau gera í dag. Við sem erum hreyfihömluð höfum nefnilega oftast lítið að gera með bíla ef við komumst ekki inn í þá og lítið að gera með hjálpartæki í bíl ef bíllinn er ekki til staðar.