143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

opinn hugbúnaður í menntakerfinu.

[11:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera þá játningu að ég er ekki vel að mér í málinu þannig að ég er ekki í færum til þess að svara fyrirspurninni með viðhlítandi hætti, öðrum en þeim að ég veit af þessari stefnumótun og með minni takmörkuðu þekkingu á þessum málum er það svo að ég tel ástæðu til að áfram verði haldið á þessari braut.

Eitt af því sem mér skilst að þessu fylgi sé sparnaður, þetta sé ódýrari leið fyrir okkur og líka til þess fallin að hvetja til aukinnar þróunar í þessum hugbúnaði. Ef það kemur með engu móti niður á gæðum skólastarfsins og því sem þar er verið að vinna að fara þessa leið þá sé ég í sjálfu sér ekkert til fyrirstöðu að haldið verði áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Í það minnsta er ekkert í mínum huga sem kallar á að setja einhvers konar bremsur á þetta. En þetta er bara eitt af þeim málum, virðulegi forseti, sem ég hef ekki sett mig sérstaklega vel inn í.