143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

skuldaleiðréttingar.

[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér skiptir máli að vera nákvæmur.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra aftur: Kemur til greina að auka nettóskuldir ríkissjóðs til að mæta skuldaleiðréttingunum? Hafnar hæstv. fjármálaráðherra því að ráðast í peningaprentun eða útgáfu skuldabréfa á Seðlabankann með þeim alvarlegu afleiðingum sem það mun hafa fyrir viðskiptajöfnuðinn sem hefur því miður þróast með mjög óhagstæðum hætti á undanförnum mánuðum?

Vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra auglýsir núna eftir tillögum stjórnarandstöðuflokkanna, okkar sem ekki var boðið að borðinu í starfshópum ríkisstjórnarinnar til að leggja þar fram hugmyndir og tillögur, skal áskoruninni tekið fúslega. Ég skal koma á framfæri við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tillögum okkar í Samfylkingunni um aðgerðir í skuldamálum sem lagðar voru fram af níu þingmanna hópi hér á síðasta kjörtímabili og urðu síðan að kosningastefnu okkar sl. vor og er það sem við töldum (Forseti hringir.) gerlegt í skuldamálum heimilanna, það skref sem við teljum mikilvægt (Forseti hringir.) að stíga.