143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

hagvaxtarhorfur.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hagvaxtarhorfurnar fyrir þetta ár, næsta ár og árin þar á eftir eins og þær birtast okkur í spám Hagstofunnar eru vonbrigði. Það eru vonbrigði fyrir okkur Íslendinga eftir þann mikla samdrátt sem varð hér árið 2009 að hafa ekki fengið alvöruviðspyrnu að nýju til þess að endurheimta þau störf sem töpuðust. Spáin fyrir næsta ár er auðvitað á sinn hátt afleiðing af stöðunni eins og hún er í dag. Það gerist ekkert við það eitt að nýr mánuður kemur upp á dagatalinu heldur er næsta ár framhald af ástandi sem við búum við í dag.

Af því að hv. þingmaður minnist hér á Helguvík verð ég að láta þess getið að dæmið um Helguvík inni í hagvaxtartölunum er kannski til áminningar um það hvað stærri fjárfestingarverkefni geta skipt miklum sköpum fyrir umsvif, fyrir tekjur ríkissjóð og fyrir atvinnusköpun í jafn litlu hagkerfi og okkar.

Það er einungis ein leið út úr þessari stöðu og hún er sú að hvetja til frekari fjárfestinga. Opinberar fjárfestingar hafa verið í algjöru lágmarki og fjárfestingar einkaaðila hafa sömuleiðis verið algjörlega ófullnægjandi. Við vinnum nú hörðum höndum að því að bæta umhverfið fyrir fjárfestingar. Meðal þess sem þarf að gerast er að við þurfum að koma fram með endurnýjaða trúverðuga áætlun um það hvernig við komumst út úr gjaldeyrishöftum. Við þurfum að vinda ofan af ýmsum skattahækkunum undanfarinna ára og koma með efnahagsstefnu sem laðar fram fjárfestingu. Hér þarf að nást grundvöllur fyrir nýtt tímabil aukins stöðugleika og þar geta kjarasamningar skipt sköpum.

Varðandi fjáraukalagafrumvarp þessa árs er það rétt, það er of seint á ferðinni. Það stóð til að það yrði komið fram og er einungis dagaspursmál hvenær því verður dreift hér á þinginu eftir meðferð í (Forseti hringir.) ríkisstjórn og þingflokkum, en það hefur tafist vegna þess að önnur verkefni voru fyrr á ferðinni að þessu sinni en venja er til og ég nefni þar sérstaklega að tekjuöflunarfrumvörpin hafa aldrei komið jafnsnemma í ferlinu og á þessu ári.