143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna þeirra efnisreglna sem hér á að afnema er auðvitað eðlilegt að spurningar af þessu tagi vakni. Við þurfum ekki að fara svo langt aftur eins og til Steingríms Hermannssonar, hvað þá Eysteins Jónssonar, til að finna Framsóknarflokk sem var tilbúinn til að innleiða þessar efnisreglur. Mörgum fannst að Framsóknarflokkurinn undir forustu Halldórs Ásgrímssonar væri nú ekki ýkja grænn en það var engu að síður það ríkisstjórnarsamstarf sem ég hygg að hafi í tvígang flutt frumvörp á Alþingi um að innleiða þessar efnisreglur. Ef það eru slík sjónarmið sem búa að baki afturkölluninni mætti segja að Framsóknarflokkurinn væri orðinn minna grænn en hann var á árabilinu 1995–2007 og þótti þá sumum samt nóg um.