143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson dró ágætlega athyglina að því sem er í raun og veru það furðulega við framgönguna hér, að hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn skuli ekki leggja fyrir þingið að ýta nýjum náttúruverndarlögum til hliðar en tiltekin ákvæði þeirra taki þó gildi, bætist við gildandi lög. Eða hitt sem hefði verið betra að segja, að þrátt fyrir gildistöku laganna skulu þessi tilteknu ákvæði frestast eða eitthvað í þeim dúr. Það er alveg rétt að auðvitað er mjög langt gengið að ætla að stúta lagabálki eins og hann leggur sig á einu bretti. Það er það ævintýralega sem er lagt til við Alþingi eftir heildarendurskoðun á afar mikilvægum málaflokki með margra ára aðdraganda.

Þá kemur að því sem mig langar líka að heyra sjónarmið hv. þingmanns gagnvart. Nú á þingið næsta leik, nú er málið að komast á forræði Alþingis. Það er auðvitað ekkert sem stöðvar umhverfis- og samgöngunefnd í því að komast að annarri niðurstöðu en ráðherra leggur hér til, fara í þá vinnu sem þarna er verið að tala um, sem auðvitað hefði átt að byrja á í vor ef ný ríkisstjórn var ósátt við einhverja tiltekna hluti í þessari löggjöf, að greina hvað það var. Er tími til að koma með tillögur um lagfæringar á því eða viljum við leggja til við þingið frestun gildistöku einhverra tiltekinna ákvæða? Nei, það er ekki gert, heldur beðið til 18. nóvember, þá kemst málið á dagskrá og setur þingið auðvitað í tímapressu.

Engu að síður er það þannig að fordæmi eru fyrir því, ekki síst í umhverfisnefnd Alþingis, að menn hafi sýnt sjálfstæði í vinnubrögðum. Ég minnist þeirra tíma þegar þar voru menn eins og Hjörleifur Guttormsson og Ólafur Örn Haraldsson sem tóku stundum frumvörp úr umhverfisráðuneytinu og eiginlega stútuðu þeim gjörsamlega og skrifuðu ný og höfðu fullan kjark. Hv. þm. Pétur Blöndal er að hvetja okkur með tillöguflutningi til þess að Alþingi taki sjálft meira frumkvæði í lagasmíð. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson (Forseti hringir.) er meðflutningsmaður, en eigum við ekki að grípa tækifærið?