143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:06]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn vegna þess að ég held að afleiðingin geti verið mjög alvarleg, satt best að segja. Unnin hefur verið töluverð vinna og ég hef sjálfur tekið þátt í því, á vettvangi Ferðafélagsins 4x4, að stikumerkja ákveðna slóða, t.d. í kringum Kerlingarfjöll, þannig að menn séu klárir á því hvar eigi að aka þar. En því miður er það svo að nú þegar allir ferðast um hálendið með svokölluðu GPS-tæki og, svo ég leyfi mér að sletta, virðulegur forseti, „tracka“ för sína, eða búa til slóða í kortagrunn sinn, sem þeir svo deila með öðrum, þá myndast mjög fljótt slóðar sem kannski tveir, þrír eða fjórir hafa ekið og aðrir líta á sem vegslóða. Og það að hverfa frá gerð svona kortagrunns sem er hin endanlega útgáfa sem menn vinna þá auðvitað í sátt við útivistarfélög og ferðafélög þýðir einfaldlega að áfram ríkir einhvers konar villta vesturs ástand í þessum efnum. Það held ég að enginn vilji. Það er það sem á að forðast og það er meðal annars vegna þess sem ég hafði mikla fyrirvara við þær breytingar sem gerðar voru í lokameðförum frumvarpsins á síðasta kjörtímabili, þar sem menn frestuðu þessu, að vísu í tilraun til að gera málamiðlun og koma til móts við sjónarmið þáverandi stjórnarandstöðu, en tíminn vinnur svo sannarlega ekki með okkur í þessum efnum.

Það færist í vöxt að jafnvel erlendir ferðamenn leigi stóra, breytta jeppa og hafi ekki þekkingu á þeim lögum og reglum sem gilda í þessum efnum.