143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru alltaf sáttafletir fyrir hendi en hins vegar hefur okkur gengið frekar erfiðlega, við þessa umræðu, að kalla fram raunverulega ástæðu þess að málið er sett fram með þessu sniði, þ.e. að það sé svo mikið offors í málinu og þessi stórhættulegu lög séu þeirrar gerðar að það þurfi bara að ógilda þau, bara henda þeim út í hafsauga. Menn eru ekki einu sinni tilbúnir að segja: Heyrðu, við þurfum meiri tíma. Við þurfum að ná betur utan um það hvað sátt er um og hvað síður og við frestum gildistímanum um þrjá mánuði til viðbótar eða eitthvað slíkt og setjumst svo yfir það í raun, eins og til að mynda þessa kortagrunnsumræðu og fleiri þætti sem eru bara umtalsvert jákvæðir við þessi lög og allir ættu að geta verið sammála um.

Ef það er þannig að þetta snýst um 57. gr., ef þetta snýst um varúðarregluna, ef þetta snýst um ákvæðið um sérstaka vernd, og menn vilja ekki varúðarregluna, þá eru ekki margir sáttafletir í hendi, virðulegi forseti, því miður.