143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég vil vekja athygli þingmanna á því að það eru gríðarleg tækifæri í þeirri úthlutun á kvóta í makríl sem fram undan er á þessum vetri. Það er augljóst að þar eru ný verðmæti og gríðarleg verðmæti sem koma til úthlutunar og það er algerlega sjálfsagt að þau séu að verulegu eða jafnvel öllu leyti boðin út á markaði þannig að aðilar geti keppt um þær heimildir og greitt fyrir þær eðlilegt endurgjald í ríkissjóð. Það er auðvitað tækifæri sem stjórnarliðið í þinginu má alls ekki láta fram hjá sér fara því stjórnarliðið skortir fjármuni til að leggja í Landspítalann, til að hætta við niðurskurðinn, bæði í skólakerfinu og á heilbrigðisstofnunum hringinn í kringum landið og ef marka má fréttir skortir jafnvel enn þá fjármögnun, a.m.k. að einhverjum hluta, á fyrirhuguðum skuldaleiðréttingum. (Gripið fram í.)

Í því að úthluta makrílkvóta varanlega eru fólgin gríðarleg atvinnutækifæri sem er eðlilegt að borgararnir hafi jafnan aðgang að en líka verðmæti sem er erfitt fyrir okkur að ákveða verð á hér og er langbest að ráðist á markaði í frjálsri samkeppni aðila. Ég ætla út af fyrir sig ekki að útiloka að þeir aðilar sem hafa aflað veiðireynslu ættu rétt á því að fá einhvern hluta af þessum heimildum til að mæta tilkostnaði sem þeir kunna að hafa orðið fyrir við að afla veiðireynslunnar. En að langstærstum hluta er hægt að bjóða út á markaði kvóta á makríl og afla þannig gríðarlegra tekna fyrir ríkissjóð og tryggja jafnræði fólks til að stunda sjó.