143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að vera þriðja stjórnarþingkonan sem kemur í pontu í dag til að ræða umhverfismál, en mig langar til að taka undir orð Ban Ki-moons, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem hann lét falla fyrir nokkrum dögum. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að hinn skæði fellibylur sem fór yfir Filippseyjar væri afleiðing loftslagsbreytinga og ætti að vera öllu mannkyni til viðvörunar.

Gríðarlegt manntjón og sömuleiðis eignatjón varð á Filippseyjum af völdum hamfaranna eins og menn vita. Mig langar sérstaklega til að geta þess hversu ánægjulegt er að sjá hvað Íslendingar hafa brugðist af miklum myndarskap við beiðnum um hjálp til Filippseyinga. Ég sendi öllum Filippseyingum sem búa á Íslandi og hafa misst ástvini sína samúðarkveðjur.

En svo ég haldi áfram að vitna í Ban Ki-moon, sem ég tel vera mann sem fer ekki með neitt fleipur, þá segir hann það mikið áhyggjuefni hve margir virði loftslagsbreytingar á jörðinni og alvarlegar afleiðingar þeirra að vettugi. Hækkandi hitastig hefur hins vegar áhrif á okkur öll, jarðarbúa. Mikilvægt er að setja markmið um að hitastig á jörðinni hækki ekki meira en um 2 gráður á þessari öld, en samkvæmt framkvæmdastjóranum kann að stefna í að yfirborðshiti hækki um allt að 4,8 stig með stóraukinni hættu á alvarlegum flóðum, þurrkum og hækkun sjávarborðs í framtíðinni og svipuðum atburðum og urðu á Filippseyjum.

Á sama tíma og þetta gerist er haldin loftslagsráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna í Póllandi þar sem 190 ríki taka þátt. Það er auðvitað bráðnauðsynlegt að koma á samkomulagi allra ríkja um aðgerðir sem fyrst en sérfræðingar telja því miður afar ólíklegt að það takist á ráðstefnunni í Varsjá sem nú stendur yfir, þrátt fyrir þá vá sem yfir okkur vofir. Það er verulegt áhyggjuefni.