143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um náttúruverndarlögin, þ.e. þá tillögu hæstv. ráðherra að fella þau úr gildi. Þrátt fyrir að hafa hlustað á umræðuna frá upphafi og lagt mig eftir því að reyna að átta mig á því hvað liggur að baki hjá hæstv. ráðherra er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna frumvarpið er flutt. Þetta er frumvarp til laga um að fella úr gildi mál sem er búið að vera til afgreiðslu í langan tíma, fá ítarlega umræðu, vandaða umfjöllun, m.a. í nefndum þingsins, lauk á vorþingi og nýr ríkisstjórnarmeirihluti ætlar að byrja á því að fella úr gildi.

Hugsum okkur þetta sem almenna meginreglu í stjórnsýslunni. Ég kalla það minnisvarðapólitík þegar einstaka ráðherrar ætla að skapa sér stöðu með því að kollvarpa einhverju sem á undan er gengið. Því miður hefur verið allt of mikið um það, en að vísu ekki í þessu formi. Ég hef ekki séð það oft. Hér var lögð fram hvítbók, ítarlegar upplýsingar um það hvernig unnið hefði verið að málinu. Það er ágætt að skýra að í hvítbók er fyrst og fremst safnað upplýsingum og forsendum til þess að taka afstöðu áður en farið er út í frumvarpsvinnu. Frumvarpið var síðan unnið, það lagt fyrir þingið þar sem það fékk ítarlega umfjöllun, komist var að niðurstöðu þar sem leitað var sátta á milli aðila og frumvarpið samþykkt, að vísu með meiri hluta og með séráliti frá minni hlutanum, þremur af þeim níu sem voru í þeirri nefnd.

Ég velti fyrir mér og spyr: Er nema von að fólkið spyrji mig og spyrji í samfélaginu hvað liggi að baki? Er þetta uppgjöf? Treysta hæstv. ráðherra og stjórnarflokkarnir sér ekki til að fylgja nýju lögunum eftir? Spyr sá sem ekki veit. Er það einhvers lags hroki eða jafnvel minnimáttarkennd sem kallar á að menn þurfi að sanna sig, sýna mátt sinn og megin, nú er ég kominn til valda? Er það það sem liggur að baki? Er það vegna þess að verja þarf einhverja sérhagsmuni, vegna þess að hagsmunahópar sem hafa lagst á ráðherra eða jafnvel stjórnarflokkana vilja gæta að því að þarna verði ekki breytingar sem þóknast þeim ekki? Er þetta kannski auðveldasta hagræðingarleiðin? Áætlað er að þetta kosti um 100 milljónir króna á ári, á að fresta og hætta við til þess að spara sér þann pening? Eða er það kannski það að umhverfisráðuneytið var sett sem viðbótarráðuneyti við landbúnaðar- og atvinnumálin, er það nú viðhengi og skúffa í ráðuneytinu, málið alls ekkert brýnt og leggja menn ekki mikla áherslu á málaflokkinn?

Ég ætla ekki að svara þessum spurningum en mér finnst ástæða til að velta þeim upp einfaldlega vegna þess að þetta er það sem maður er spurður að og það sem menn velta vöngum yfir. Ég óttast að þarna sé verið að gæta ákveðinna sérhagsmuna, verið sé að undirbúa eða réttara sagt gæta þess að setja ekki upp frekari hindranir til að koma ákveðnum hlutum í gegn. Ég ætla að vona að ég hafi rangt fyrir mér vegna þess að við höfum ekki efni á því að leika okkur með náttúruna á nokkurn hátt. Þegar maður skoðar hvers vegna verið er að fella þessi lög úr gildi og fer að lesa greinargerðina spyr maður einnig: Um hvað er ágreiningurinn? Geta menn kortlagt hann fyrir okkur nánar en gert er í greinargerðinni? Hvaða mál voru óútkljáð og hverju þarf þá að breyta? Hverju á að breyta? Hér á að fara í endurskoðun og ég geri ráð fyrir að menn verði þá að teikna nákvæmlega upp hverju á að breyta í framhaldinu.

Hverjir urðu útundan í samráðinu? Það er talað um að menn hafi ekki gætt samráðs og ekki hafi verið talað við alla hópa. Ég á mjög erfitt með að skilja það miðað við það sem lagt var upp með. Ég sit þessa vikuna sem aðalfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, ég er að öllu jöfnu varamaður í nefndinni, og hef gætt þess að fara yfir þetta frumvarp, þess vegna kem ég hér í ræðu. Ég hef tjáð mig um það í andsvari við hæstv. ráðherra að ég tel gríðarlega mikilvægt að allir þeir sem komu að frumvarpsgerðinni og fjölluðu um það, skiluðu áliti, verði kallaðir inn í nefndina að nýju og farið verði yfir það.

Ég fagna því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar, hafi tjáð þá skoðun að honum finnist það eðlilegt. Hann gerði það í morgun í útvarpsþættinum Í bítið. Ég treysti á að menn fari í vandaða vinnu til þess að greina um hvað ágreiningurinn er og fari í að leita leiða til þess að leysa hann, frekar en að henda hlutunum út af borðinu.

Þess er getið í greinargerðinni að skortur hafi verið á samráði, eins og ég sagði áður. Þó fengu allir tækifæri til þess að gefa umsagnir. Það komu umsagnir, frumvarpinu var gríðarlega mikið breytt í meðförum þingsins, það betrumbætt og lagað og leitast við að finna ásættanlegar niðurstöður. Það verður þó alltaf þannig með stóran málaflokk að ekki líkar öllum allt sem þar er sagt eða skrifað. Það er talað um boð og bönn, að andinn í lögunum sé þannig. Ég hef verið að lesa lögin aftur og ég átta mig ekki á því hvernig hægt er að taka ákvörðun til einstakra þátta öðruvísi en að minnsta kosti kveða upp úr um hvað má og hvað má ekki, til þess eru lög, en ég get ekki séð að tónninn sé að öðru leyti neitt neikvæður hvað varðar þá þætti.

Það er rætt um óljósa verkaskiptingu og hafa ríkisstofnanirnar verið nefndar. Það kom fram í umræðunni að það er reglugerðarheimild sem hæstv. ráðherra hefur til þess að kveða skýrar á um hvert sé hlutverk hverrar stofnunar fyrir sig í þeim málum, þannig að það ætti í sjálfu sér ekki að þvælast fyrir. Það er líka sagt hér að um sé að ræða ákveðna óvissu sem verið sé að eyða með því að draga lögin að fullu til baka í staðinn fyrir að boða að gera eigi lagfæringar á þeim fyrir gildistökuna í apríl á næsta ári. Þá veltir maður því fyrir sér hvaða óvissa felist í því að segja að draga eigi lögin til baka, láta lögin frá 1999 gilda með þeim göllum sem þar eru, segja ekkert um hverju stendur til að breyta né hvenær eigi að ljúka vinnunni í framhaldinu. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því, eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, að það taki allt kjörtímabilið, og það dugi jafnvel alls ekki til, að endurskoða þessi lög.

Ég sagði áðan að lögin sem á að fella úr gildi hafi hlotið vandaðan undirbúning og það er raunar mjög forvitnilegt að skoða söguna. Sett voru lög um náttúruvernd 1956 og það er fróðlegt fyrir þá sem eru í stjórnarmeirihlutanum að skoða hverjir voru ráðherrar á hverjum tíma og hverjir fluttu málin og hver voru meginatriðin af því að það tengist gjarnan þeim flokkum sem voru alls ráðandi á þessum tíma, sömu flokkum og stýra landinu í dag.

Lögin voru endurskoðuð 15 árum síðar, 1971 og aftur 1996–1999 og nú komum við með ný lög sem eiga að taka gildi á árinu 2014, á tímum þar sem náttúruvernd hefur verið aðalumræðuefnið í samfélaginu og ekki bara í samfélaginu hér heldur í heiminum öllum. Þá er það allt í einu orðið þannig að við ráðum ekki við að setja ný lög til þess að tryggja stöðu náttúrunnar í nútímanum. Ferlið við nýju lögin var eins og ég sagði áður, skipaður var starfshópur strax 2009, hvítbókin, þ.e. sérfræðingar og þeir sem best þekktu til drógu saman helstu atriði hvað varðar náttúruvernd í eina bók — form sem ég fagnaði mjög mikið þegar ég sá það vegna þess að það er einmitt sú vinnuaðferð sem okkur vantar miklu, miklu meira af í þinginu og hjá stjórnvöldum, að menn leggi fram megingögn í málinu áður en farið er í frumvarpsgerð, leggi gögnin fram þannig að þau séu opin og til umræðu og síðan er farið í lagasetninguna í framhaldinu. Þetta endaði með lagafrumvarpi sem kom fram í nóvember síðastliðnum og síðan með lögum síðastliðið vor.

Það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að átta okkur á því þegar við fjöllum um náttúruvernd erum við auðvitað ekki endilega að fjalla um allt sem tengist náttúru okkar. Við erum með lífríkið í sjónum, við erum með íslensku náttúruna, við eigum okkar hreina loft, við eigum okkar hreina vatn, ósnertu náttúruna og víðáttuna. Við eigum gríðarlega margar náttúruperlur og það er einmitt verið að fjalla um hvernig við nýtum og hvernig við umgöngumst þessar náttúruauðlindir, hvernig við varðveitum þær og tryggjum að við göngum ekki þannig á þær í nútímanum að börnin og barnabörnin okkar fái ekki notið þeirra. Við verðum líka að tryggja að við getum haft almennan aðgang að náttúruauðlindunum. Við skulum ekki gleyma því sem hefur gerst á undanförnum árum, eitt sinn var hér bændasamfélag þar sem menn voru með bújarðir og nytjuðu land sitt fyrir hvers kyns landbúnað en nú hafa auðmenn og alls konar fólk eignast jarðir víðs vegar um landið og þar hafa menn lokað sig af þannig að jafnvel það sem á að vera tryggt í lögum, eins og að geta fylgt strandlengjunni, þar eru menn búnir að girða sig af, setja bómur, loka fyrir aðgengi og tryggja að menn komist ekkert inn á svæðin.

Er það þannig Ísland sem við viljum? Ætlum við að fara út í að selja inn á öll þessi svæði þannig að almenningur hafi ekki aðgang eða geti að minnsta kosti ekki komið mjög oft? Við erum að nytja svæðin fyrir ferðamennina en við vitum líka að náttúran er ekki ótakmörkuð auðlind að því leyti að ef við göngum ekki vel um hana verður hún ekki aðdráttarafl fyrir ferðamennina að endalausu.

Ég held að þarna séum við með hina eilífu spurningu um hvar jafnvægið liggur. Við höfum tekið þátt í því í alþjóðasamningum og ákvörðun að setja upp svokallað varúðarreglu til að tryggja að ef álitamál er um nýtingu og ekki liggja fyrir nægjanleg gögn látum við náttúruna njóta vafans. Ætla menn að fara að kasta því út? Það hefur verið í lögum og þarf að fylgja því betur eftir. Ég held að menn verði að vanda sig þegar verið er að fjalla um þetta.

Það sem hefur ítrekað komið upp eftir að þetta nýja Alþingi og ný ríkisstjórn tók til starfa er umræðan um sátt. Ég hef alltaf stutt það orð og tekið þátt í því að vinna að sáttum í hinum og þessum málum en ég verð að viðurkenna að það hlýtur að fara að koma að því að við ræðum um á hverra forsendum sáttin eigi að vera. Mér finnst menn vera að biðja um sátt og biðja okkur um að hegða okkur öðruvísi en hefur verið gert á undanförnum árum og að sáttin felist í að við göngumst inn á vilja stjórnarmeirihlutans, það sé sáttin, gagnrýnislaust. Þannig nær maður ekki sátt og sáttin í þessu tilfelli er auðvitað við almenning, við náttúruna og í því að við reynum að leiða saman ólík sjónarmið en það kann að vera, og er auðvitað þannig í sumum tilfellum eins og ég var að ýja að í byrjun, að ólíkir hagsmunir séu á bak við annars vegar stjórnarflokkana og hins vegar þá flokka sem eru í stjórnarandstöðu og það endurspeglist í viðhorfum til nýju laganna.

Gott og vel. Kortleggjum það, förum skipulega yfir hvað það er, göngum við á einhverja hagsmuni sem rétt er að verja? Ef svo er reynum þá að ýta þeim þá út af borðinu. Ég sé að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er kominn í salinn en hann hefur lofað okkur því í umhverfis- og samgöngunefnd að þessi mál verði rædd ítarlega og reynt verði að átta sig á því um hvað nákvæmlega ágreiningurinn er, að kallaðir verði til þeir aðilar sem fjölluðu um málið á sínum tíma og reynt að skrá og kalla til viðtals þá sem fjölluðu um málin á sínum tíma, heyra viðhorf þeirra til þess að verið sé að taka þessi lög algjörlega út af borðinu. Þá getum við metið það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hvort ástæða sé til að hún taki málið í sínar hendur, eins og þingið hefur gert í nokkrum málum og í auknum mæli sem betur fer, og segi þá hreinlega: Við viljum ná þessum breytingum fram á frumvarpinu. Og þingmenn sem þar sitja úr öllum flokkum koma þá bókstaflega með tillögur um breytingar ef það kemur í ljós, sem ég held að það geri, að hægt væri að ná sátt um málið án þess að henda því út af borðinu.

Ég legg áherslu á að við fáum umræðuna um sáttina og í hverju hún felst. Það getur aldrei verið þannig að við eigum að hneigja okkur fyrir því sem kemur fram. Menn ræða að hér eigi að vera ópólitísk afstaða og að menn eigi ekki að heita stjórnarandstaða og svo framvegis og þá er athyglisvert að hafa nýlega verið í landi eins og Aserbaídsjan þar sem rætt var um kosningar og annað. Evrópuráðið leggur megináherslu á að tryggja stöðu stjórnarandstöðu vegna þess að hún gegnir gríðarlega miklu hlutverki í að gæta hagsmuna annarra hópa en stjórnarmeirihluti gætir á hverjum tíma. Sú gagnrýni kom fram á kosningarnar á Íslandi fyrir nokkrum árum, að aðkoma stjórnarandstöðu þyrfti að vera sterk. Við skulum því ekki vanmeta það hlutverk okkar sem erum í stjórnarandstöðu að veita nýjum stjórnarmeirihluta aðhald. Okkur var veitt aðhald þótt okkur hafi fundist óbilgirnin mikil á þeim tíma en við kveinkuðum okkur yfirleitt ekkert undan því (Forseti hringir.) heldur reyndum hreinlega að vinna okkur áfram þrátt fyrir þá gagnrýni sem kom fram. Hún er mikilvæg (Forseti hringir.) sem hluti af þessu máli.