143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:00]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan er ég alveg hrikalega græn þegar kemur að plottum og slíku. Í einlægri trú minni hélt ég að náðst hefði víðtæk sátt og við værum að fá náttúruverndarlög sem væru í takt við það að hér er að koma árið 2014. Augljóslega var ekki svo. Það er oft sem tíminn leiðir í ljós og það opinberast hvað lá í rauninni að baki. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni ekki hafi verið heilindi á bak við, en það hefði þá verið heiðarlegra að greiða atkvæði á móti í stað þess að sitja hjá við atkvæðagreiðslu í þessu stóra og mikla máli.

Þetta eru svokölluð klækjastjórnmál sem mér finnst ógeðfelld. Það situr líka svolítið í mér og ég vil fá að minnast á það í þessu andsvari að sagt var í ræðupúltinu af varaþingmanni, sem ég held að sé á mínum aldri, af minni kynslóð: Hér er minni hluti og hér er meiri hluti og svoleiðis er það bara. Það finnst mér alls ekki í takt við að það er að koma árið 2014. Og þau vinnubrögð og annað sem hér hefur verið kallað eftir. Það veldur mér miklum vonbrigðum, ég verð að segja eins og er. Það veldur mér mjög miklum vonbrigðum. Þetta er það sem ég upplifi hér á Alþingi Íslendinga. Það kristallast í því hverjir það eru sem sitja í þessum sal þegar það vantar korter í leikinn Ísland–Króatía og reyna að vekja athygli á þessu máli.

Ég trúi því ekki eftir allt sem á undan er gengið að við séum ekki komin lengra en þetta.