143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

niðurskurður í framhaldsskólum í Hafnarfirði.

[15:33]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það berast ekki eingöngu vondar fréttir af Ríkisútvarpinu, það berast einnig skrýtnar og vondar fréttir af framhaldsskólakerfinu okkar hér á Íslandi og nú síðast í Hafnarfirði þar sem verið er að leggja af hina svokölluðu fjölmiðladeild Flensborgarskólans, myndlistar- og matreiðslukennslu og einnig er gerð hagræðingarkrafa eða niðurskurðarkrafa upp á tæp 9–10% í Iðnskólanum í Hafnarfirði.

Sú sem hér stendur skoðaði stjórnarsáttmálann þar sem mjög skýrt kemur fram að ríkisstjórnin leggi ríka áherslu á að efla menntakerfið með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi; að fjölbreytileiki í skólastarfi sé lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi og að áhersla verði lögð á samráð við hagsmunaaðila þegar ákvarðanir verði teknar á vettvangi ríkisins um skipulag náms og kennslu.

Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort umrætt samráð hafi verið haft við yfirstjórnendur Flensborgarskóla og Iðnskólans í Hafnarfirði þegar kemur að því að skera niður iðnnám hér á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er sagt í stjórnarsáttmálanum að auka þurfi áherslu á nám í iðn-, verk-, tækni- og hönnunar- og listgreinum og efla tengsl þessara námsgreina við atvinnulífið.

Hér á Íslandi erum við með einstaklega hátt brottfall nemenda en eingöngu 62% þeirra sem hefja nám á framhaldsskólastigi ljúka því. Sterkasta vopnið gegn brottfalli er að efla iðnmenntun og verklega kennslu á framhaldsskólastigi. Ég spyr því hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann ætli að láta verða af þessum niðurskurði, þ.e. að fjölmiðlabrautin í Flensborg verði lögð af. Ég spyr einnig hvort ekki sé lag að skoða menntakerfið í heild sinni í staðinn fyrir að ráðast sérstaklega á þessar iðngreinar.