143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

umbótasjóður opinberra bygginga.

103. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er hér til að ræða um tillögu til þingsályktunar um svokallaðan umbótasjóð opinberra bygginga. Hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að stofna umbótasjóð sem styðji við uppbyggingu nýrrar þjónustu eða nýtt hlutverk opinberra bygginga sem misst hafa fyrra hlutverk sitt.“

Meðfylgjandi er greinargerð, svohljóðandi:

Verndun bygginga ætti að gera að föstum þætti í skipulagi borga og byggða í stað þess að vera handahófskennt aukaatriði eins og oft hefur verið. Það er þjóðhagslega mikilvægt verkefni að finna sögufrægum byggingum verðugt hlutverk þegar þær hafa misst upprunalegt hlutverk sitt. Þess eru dæmi að byggingar hafi verið látnar standa auðar í langan tíma og látnar drabbast niður. Nýjasta dæmið er St. Jósefsspítali í Hafnarfirði sem hefur núna staðið auður í tvö ár.

Það er áríðandi, m.a. með tilliti til sögu, menningararfs og sparnaðar, að finna lausn á því hvernig best megi tryggja að byggingar séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt.

Ég vil nota þetta tækifæri til að útskýra hvað felst í þessari þingsályktunartillögu. Hún á sér ákveðna forsögu. Árið 2009 var ég stödd í Tartu í Eistlandi og fékk tækifæri til að heimsækja gamlan, fornfrægan kastala sem hafði mikið sögulegt gildi fyrir íbúa Tartu og telst til menningarverðmæta. Tartu er önnur stærsta borg Eistlands og mikil háskólaborg. Þar hafði þessi kastali verið í niðurníðslu til margra ára og virtist ekki eiga sér viðreisnar von. En þá fóru Tartu, eistneska ríkið og Evrópusambandið — Eistar eru í Evrópusambandinu — í samstarf um að gera upp og vernda þennan kastala og finna honum verðugt hlutverk upp á nýtt. Í dag laðar hann að hvað flesta ferðamenn í Tartu, þar eru líka veitingastaður, safn og ýmislegt fleira.

Þarna þurfti átak til. Við skulum alveg halda því til haga að það að gera upp eitt stykki kastala er ekki ódýrt, en íbúar Tartu ákváðu aftur á móti að láta verða af þessu. Það eru fleiri svona verkefni víðs vegar um Evrópu og hef ég einnig heyrt af sjóði af þessum toga í Danmörku. Það sem er að gerast í þróun til dæmis sjúkrastofnana og skóla er það að nútímakröfur eru allt aðrar en þessar gömlu, virðulegu byggingar geta uppfyllt. Þær eru fallegar, já. Þær eru byggðar í fallegum stíl af miklum hug og metnaði þeirra sem það gerðu og þær hýstu yndislega starfsemi, m.a. að hlúa að sjúkum, mennta börn og unglinga eða nýja kennara. Þegar við erum komin til ársins 2013 eru kröfur aðrar.

Við erum með dæmi um byggingar sem hafa misst hlutverk sitt víða um land og standa kannski auðar. Ég heyrði til dæmis að framhaldsskólinn á Eiðum sem er í einkaeigu í dag stendur tómur árið um kring nema að þar dettur inn listasýning í viku á ári. Þetta er stór, mikil og falleg bygging sem gæti haft miklu veglegra hlutverk, samfélagslegt hlutverk. Gamli barnaskólinn í Hafnarfirði varð Lækjarskóli. Þar var byggður nýr skóli sem uppfyllir allar kröfur um nútímamenntun en sem betur fer var hægt að finna gamla Lækjarskóla verðugt hlutverk sem menntasetur. Þar er sí- og endurmenntun, leiklistarfélög og annað en þetta er vissulega dýr eining í rekstri. Þær eru ekkert sérlega hagstæðar í hönnun og eru ekki reiknaðar út með tilliti til þess, varðandi vegalengdir á salerni eða upp á milli hæða og með tilliti til nútímakrafna um aðgengismál fatlaðra.

Ég hef heyrt sögur af ýmsum byggingum sem eru að falla í sama far. Tökum sem dæmi gamla borgarbókasafnið í Reykjavík og Fríkirkjuveg 11. Í íslensku samfélagi sitjum við oft uppi með tómar, fallegar og stórar byggingar sem hafa mikla sögu og gegndu miklu hlutverki. Það sem ég er að óska eftir er að við horfumst í augu við þetta vandamál og þá þróun sem á sér þarna stað. Við erum í átaki að byggja ný hjúkrunarheimili sem uppfylla nútímakröfur og vonandi verður byggður nýr Landspítali einhvern tímann sem uppfyllir nútímakröfur. Þessi þróun á sér stað um allt land og ég veit að oft og tíðum standa þær sveitarstjórnir sem að byggingunum koma í ströngu við að halda þeim við, finna þeim hlutverk og sjá til þess að það sé kveikt ljós í gluggum með fólk á lífi inni alla virka daga ef ekki um helgar.

Ég hef heyrt að verkfræðingar hafi farið inn í St. Jósefsspítala í Hafnarfirði með ýmsa drauma og séð mörg tækifæri í þessari byggingu, sem er á fallegum stað í hjarta bæjarins, um hótel eða einhvern annan rekstur. Þegar fólk reiknar sig niður á hvað það mundi kosta að breyta byggingunni þannig að hún uppfyllti nútímakröfur, byggingarreglugerðir, aðgangskröfur og annað er dæmið of dýrt. Ég hef ekki þessar tölur eða greinargerðir á blaði, þetta er bara það sem ég hef heyrt. Segjum að einhver einkaaðili vildi koma að því að finna St. Jósefsspítala verðugt hlutverk og líf þannig að þarna yrði aftur umgangur af fólki og húsið lifnaði við, þá gæti þetta orðið samstarf einkaaðila og opinberra aðila ef allir væru sáttir við hlutverk hússins og tækju höndum saman um að sjá til þess að það yrði gerlegt.

Ég held að það sé komið að ákveðnum tímapunkti, St. Jósefsspítali er dæmi um þetta en það eru miklu fleiri byggingar víðs vegar um landið sem gætu notið góðs af sjóði sem þessum og hugmyndafræði. Við erum með húsafriðunarsjóð sem snýst um að vernda ytra byrði bygginga. Við erum að tala um sjóð sem mundi vinna í þeim anda en hans helsta hlutverk væri þá að taka þessar stóru, fornu, opinberu byggingar og breyta þeim innan frá þannig að þær geti fengið það líf og hlutverk sem þær svo sannarlega eiga skilið.

Ég vil fá að ljúka máli mínu með því að vitna í síðustu málsgreinina í greinargerð þingsályktunartillögunnar:

Flutningsmenn telja að verndun bygginga, nýtt hlutverk þeirra og uppbygging nýrrar þjónustu ætti að vera hluti af framtíðarstefnu sjóðs á vegum ríkisins. Stefnu sjóðsins yrði framfylgt með tilliti til gildismats og með réttlátri niðurröðun á verkefnum út frá því hvernig best megi nýta byggingar sem misst hafa upprunalegt hlutverk sitt.

Ég vona innilega að þingmenn sjái tækifæri í því að við tökum höndum saman, verndum þessa miklu menningararfleifð okkar, byggingar sem hafa sérstakan stað í hjörtum landsmanna víðs vegar um landið og gefum þessum húsum það hlutverk sem þær eiga sannarlega skilið.