143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Páli Val Björnssyni um það málefni sem hann ræddi. Ég tel að við þurfum að standa mun betur að því að hækka laun þeirra lægst launuðu og fordæma þá auglýsingu sem í loftið hefur farið af hálfu þeirra sem þar um ræðir, þ.e. SA.

Það sem mig langar að gera að umtalsefni, virðulegi forseti, er að í dag er fimmtudagur og við erum að fara að ræða fjáraukalög vegna ársins 2013. Það verður enginn fundur í fjárlaganefnd á morgun, föstudag, og gert er ráð fyrir, enn sem komið er að minnsta kosti, að 2. umr. fjárlaga fari fram á þriðjudag. Breytingartillögur frá ríkisstjórn um frumvarpið, sem sagðar eru umtalsverðar, hafa ekki litið dagsins ljós þannig að okkur í minni hlutanum hefur ekki gefist tækifæri til að líta yfir þær. Því veltir maður fyrir sér hvort til standi að breyta starfsáætlun þingsins og hvenær það yrði ljóst ef svo væri, af því að ég tel algjörlega óásættanlegt að við fáum ekki tíma til að kalla fyrir gesti og útbúa nefndarálit með góðum fyrirvara. Ég tel að ekki sé tækifæri til þess.

Síðan langar mig að inna forseta eftir því hvort hann geti látið kanna það — af því að í gær var það nefnt að hafa fundi fjárlaganefndar meðan á þingfundi stendur — hversu oft það hefur komið fyrir, við getum sagt undanfarin sex ár eða eitthvað slíkt, hvort mögulegt sé að fá það fram vegna þess að því var haldið fram að það væri venja.