143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem virðist hafa verið lagt til grundvallar í fjárlagafrumvarpinu var að skuldabréfið við Seðlabankann yrði tekið upp og skilmálum breytt á þann veg að í stað þess að um væri að ræða verðtryggt skuldabréf með vöxtum yrði bréfið allt óverðtryggt. Munurinn á því leiðir til þess að hefði bréfinu verið breytt eins og til stóð hefði verðbótaþátturinn farið út og vextirnir allir gjaldfærst á árinu. Þar sem bréfið er enn þá verðtryggt með vöxtum eru það einungis vextirnir sem koma á gjaldahliðina en verðbótaþátturinn færist yfir á efnahagsreikninginn. Greiddur verðbótaþáttur er ekki gjaldfærður með sama hætti í reikningunum og leiðir þannig til 7,5 milljarða kr. betri niðurstöðu fyrir ríkissjóð á rekstrargrunninum.

Þetta er í rauninni eina skýringin sem ég hef fram að færa á þessu. Það er aðeins komið inn á þetta í greinargerðinni, en sem sagt hafði verið gengið út frá því að á árinu yrði bréfinu breytt yfir í óverðtryggt bréf. Það hefði leitt til þess að meiri kostnaður hefði verið gjaldfærður vegna bréfsins en ella.