143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað ekki síst til að deila undrun með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem flutti ræðu áðan og er nú í forsetastóli, undrun yfir því að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar er ekki bara tekin út í fjárlögum næsta árs heldur er það rauður þráður í frumvarpi til fjáraukalaga að höggva hana nánast alfarið burt á þessu ári. Það er orðið algjört leiðarstef í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á fyrsta ári sínu að taka burt, eins og kallað er, í fjáraukalögum og í frumvarpinu „svokallaða fjárfestingaráætlun“. Þannig er það yfirleitt orðað. Ég vil leyfa mér að gera verulegar athugasemdir við þetta og við alla þá pólitík sem þarna birtist. Eru efnisleg rök fyrir því að taka burt nánast alla fjárfestingaráætlunina eða er hún bara tekin burt vegna þess að fyrri ríkisstjórn kom henni á? Eru það þá ásættanleg rök, ásættanleg pólitík? Um hvað erum við að tala? Stundum er gefið í skyn að fjárfestingaráætlunin sé einhvers konar kosningaloforð sem gefið var á síðasta ári síðustu ríkisstjórnar.

Það er ekki þannig. Hér varð hrun, eins og við orðum það oft, og viðbrögðin við hruninu voru einkum tvenns konar að mínu mati. Margir urðu skiljanlega reiðir en margir lögðust líka undir feld, ekki bara í þessum sal heldur úti um allt samfélagið, á vegum stéttarfélaga, hagsmunasamtaka, í sveitarfélögunum, úti í byggðunum; tónlistarmenn og fólk í hugverkaiðnaðinum hugsaði: Hvar eru sóknarfærin? Hvar eigum við að blása til sóknar, hvar eigum við að afla tekna?

Það var farið í yfirgripsmikla vinnu, ekki bara á vegum ríkisstjórnarinnar, ekki bara á vegum Alþingis, stundum hreint alls ekki, stundum á vegum Samtaka iðnaðarins, stundum á vegum ASÍ, stundum á vegum Samtaka atvinnulífsins og þar fram eftir götunum, til að skilgreina sóknarfærin, á vegum sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, úti um allt.

Út úr þeirri vinnu allri saman, skýrslu sem skapandi greinar gáfu út um sóknarfærin í skapandi greinum, skýrslu sem var gefin út á vegum Alþingis um sóknarfæri í græna hagkerfinu, vinnu sveitarfélaganna að sóknaráætlun landshluta, vinnu innan ferðamannageirans um sóknarfæri og nauðsynlegar aðgerðir í ferðamannaiðnaði, spratt fjárfestingaráætlunin, þar á meðal úr vinnu innan tækni- og hugverkageirans sem farið hefur fram um árabil. Þar hefur margoft verið bent á aðgerðir sem þarf að fara í til að auka tekjur af tækni- og hugverkaiðnaði á Íslandi.

Úr þessari vinnu allri saman spratt fjárfestingaráætlunin. Hún er einfaldlega sú hugmynd að taka alla þessa vinnu og, haldið ykkur nú fast, fjármagna hana. Það var ákveðið að fjármagna þetta allt. Og hver var fjármögnunin? Jú, hún var þríþætt. Það var farið í að hækka veiðileyfagjald. Mig minnir að þar hafi átt að koma 3 milljarðar, ég er ekki með tölurnar alveg í kollinum. Það fer eftir því hvort við tölum um eitt ár eða mörg ár, þar átti alltént að koma verulegur hluti, skulum við segja. Svo átti að koma arður af eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég held að ríkið eigi 41% í fjármálafyrirtækjum á Íslandi. Sá hlutur er farinn að skila verulegum arði, það sjáum við til dæmis í fjárlögum næsta árs og í fjáraukalagafrumvarpinu núna. Loks var talað um að selja sumar eigur ríkisins. Það hefur vissulega ekki gengið eftir en það var farið alveg sérstaklega í að tryggja fjármögnun. Hún er til staðar að hluta til, að hluta til hefur hún verið afturkölluð með ákvörðunum þessarar ríkisstjórnar, og hún verður að bera ábyrgð á því, og að hluta til hefur hún ekki skilað sér.

Vissulega hefði verið tilefni til að endurskoða fjárfestingaráætlunina, ég get tekið undir það. Þetta er áætlun sem byggði á ákveðnum forsendum um fjáröflun. Þær hafa ekki staðist að öllu leyti en þær hafa staðist að mjög miklu leyti og með öðrum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar hefðu þær staðist að meira leyti.

Ríkisstjórnin ætlar hins vegar ekki að endurskoða þessa áætlun. Hún tekur hana beinlínis alla burt. Þá verð ég að spyrja: Hvaða pólitík er það? Við erum ekki að finna upp hjólið á Íslandi hvað þetta varðar, aðrar þjóðir hafa lent í kreppu, aðrar þjóðir hafa lent í verulegum vanda. Finnska hagkerfið hrundi. Hvað gerðu Finnar? Þeir blésu til sóknar í hönnunargeiranum, í tækni- og hugverkageiranum, skapandi greinum og líka ferðaþjónustu — og njóta góðs af því núna.

Svíar blesu til sóknar í tónlistariðnaði og um þessar mundir er tónlist einhver stærsta útflutningsgrein Svía.

Danir hafa lengi spilað sóknarbolta í hönnunargeiranum og njóta mjög góðs af því. Það hefur stundum verið talað um að hvað varðar fjárfestingar í hönnun séu Íslendingar á sama stað og Danir voru, held ég, í kringum aldamótin þarsíðustu.

Við höfum einfaldlega ekkert spáð í þessi mál en aðrar þjóðir fara í þetta af festu og uppskera samkvæmt því. Fjárfestingaráætlunin er ekki gæluverkefni og ekki kosningavíxill, hún er pólitík sem snýst um að leggja peninga í fjárfestingar sem skila sér til baka. Skoðum til dæmis hvernig Tækniþróunarsjóður virkar. Hann virkar þannig að ríkið leggur pening í samkeppnissjóð og fyrirtæki sækja um pening í þennan sjóð ef þau hafa fjármagnað sig allt að 80% annars staðar. Hið sama gildir um Kvikmyndasjóð.

Mér finnst ég þurfa að fara aðeins yfir þetta vegna þess að mér finnst einfaldlega gæta vanskilnings á þessum málum. Þessir peningar fara í að búa til ný fyrirtæki, ný verkefni, fjölbreytta starfsemi. Við erum hérna nokkrir Íslendingar sem erum orðnir ansi leiðir á því að tala sífellt um Össur og Marel sem nýju fyrirtækin á Íslandi og núna síðast CCP. Þau þurfa að verða fleiri. Ný fyrirtæki vaxa og þau greiða til baka til ríkisins í formi skatta og fleiri gjalda. Mér voru að berast þær upplýsingar að í úrtaki 13 fyrirtækja sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 var heildarvelta á árinu 2005 20 milljarðar. Árið 2012 var heildarveltan 118 milljarðar. Það er næstum sexföldun. Þetta úrtak fyrirtækja var að jafnaði tvö til þrjú ár að greiða ríkinu framlögin til baka. Ríkið hefur fengið framlögin til þessara fyrirtækja til baka tuttugu- til fjörutíufalt. Þess eru dæmi að framlögin hafi skilað sér til baka í tilviki ákveðinna fyrirtækja um 3.500%.

Þetta er það sem við erum að tala um. Við erum ekki að tala um nein gæluverkefni. Við erum að tala um hagstjórn. Við erum að tala um að byggja upp atvinnulíf, stækka kökuna eins og Sjálfstæðisflokkurinn talar oft um. Um það snýst þetta og það að setja pening í greinar sem geta vaxið, að mestu án náttúrulegra takmarkana. Þetta hafa Norðurlandaþjóðirnar fattað. Skapandi greinar geta vaðið inn á allt markaðstorg heimsins og selt hugvit, selt tónlist. Ef Sigur Rós vegnar vel fá 50 manns vinnu. Hvað erum við til dæmis að tala um varðandi tónlist? Við erum að tala um að 20 milljónir, sem væntanlega er búið að blása af, verði settar í markaðssetningu á netinu. Hvernig haldið þið að Of Monsters and Men hafi orðið til? Með smáframlagi. Þau urðu náttúrlega til með því að æfa sig og búa til lög, en hvernig urðu þau fræg í útlöndum? Með smámarkaðssetningu á netinu sem kostar smáaura en skilar sér margfalt til baka.

Við erum gríðarlega aftarlega á merinni þegar kemur að þessu öllu saman og núna ætlum við að blása af fyrstu sóknina sem raunverulega hefur verið áætluð í þessum málum. Og hvað er sagt? Ekki fjármagnað, er sagt, ekki fjármagnað. Ég fór áðan yfir það hvernig þetta var víst sérstaklega fjármagnað en mig langar í lok ræðunnar að velta upp pólitískt heimspekilegu spurningunni:

Hvað er yfirleitt fjármagnað?

Eru 12 milljarðar í landbúnaðarkerfið sem aðallega fara í framleiðslu á lambakjöti og mjólkurafurðum fjármagnaðir? Hvernig er það fjármagnað, hæstv. fjármálaráðherra, geturðu sagt mér hvernig það er fjármagnað? Er það ekki af skatttekjum? Er það ekki yfirleitt þannig að við viljum gera ýmislegt? Kallast það ekki pólitík? Það er ýmislegt sem við viljum gera, við getum lagt þann lista niður fyrir okkur og svo höfum við pening og við forgangsröðum. Ef við veldum að forgangsraða í þágu uppbyggingar í skapandi greinum, grænum iðnaði, tækni- og hugverkaiðnaði og uppbyggingu ferðaþjónustu mundum við bara gera það.

En það vill svo til að okkur sem unnum að fjárfestingaráætluninni á síðasta kjörtímabili fannst sem stemningin, aðallega í þessum sal, væri þannig að það þyrfti þó að fjármagna þessi verkefni sérstaklega. Það kom líka á daginn. Ég man að þegar við greiddum atkvæði um þetta hérna fannst mér eins og helmingur þingmanna flissaði þegar það var verið að tala um að setja meiri peninga í hönnunarsjóð, eins og þetta væri bara eitthvert gæluverkefni, snerist um einhverja lopasokka — sem þó geta skilað örugglega arði. Þetta er reyndar ágætt dæmi. Farmers Market er að markaðssetja ullarvörur og kaupir, held ég, allt upp undir 70% af íslenskri ull og markaðssetur erlendis og selur — fyrir peninga, skilar þessu til baka.

En viðhorfið var svona í þingsalnum og það virðist núna vera í meiri hluta. Þetta er alvarlegt vegna þess að við horfum síðan á áætlun í ríkisfjármálum næstu þrjú, fjögur árin og getum ekki annað en spurt okkur: Hvaðan eiga tekjurnar að koma? Hver er sóknin? Ég hef staðið í þessum stól og spurt hæstv. forsætisráðherra af einlægni: Hvað ætlar hann að gera? Hver er sóknin, hverjir verða vaxtarbroddarnir, hvaða fleiri fyrirtæki en Össur og Marel koma upp?

Svörin eru engin. Það er bara sá rauði þráður að fjárfestingaráætlunin er tekin burt. Nú ætla ég að nefna eitt ágætt dæmi um hvernig rökin „engin fjármögnun“ gilda stundum en stundum allt í einu „fjármögnun“. Opnan á bls. 88–89 í greinargerð með frumvarpi til fjáraukalaga er mjög áhugaverð. Annars vegar er hér liður 283, Græna hagkerfið, ýmis verkefni. Í það áttu að fara 200 milljónir eða svo. Í yfirumsjón forsætisráðuneytisins með verkefnum sem er greint frá í þessari skýrslu voru 48 verkefni til uppbyggingar í grænum iðnaði sem voru samþykkt þverpólitískt í þessum þingsal sem sóknarverkefni varðandi græna hagkerfið. Þau snúast um að spara með vistvænni orku, snúast um að Íslendingar verði í fararbroddi við að þróa, framleiða og markaðssetja vistvæna tækni. Þetta er stóra málið á 21. öldinni, 48 tillögur. Forsætisráðuneytið átti að hafa yfirumsjón með framkvæmd þessara tillagna og fékk 200 milljónir til þess á fjárlögum síðasta árs. Þau eru öll skorin burt, ekki bara á fjárlögum næsta árs heldur líka í fjáraukalagafrumvarpinu. Forsendur um fjármögnun þeirra ganga ekki eftir. Bull.

Næsti liður er nr. 305 og þar er sótt um 165,5 millj. kr. framlag í nýjan fjárlagalið sem heitir „Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. og er vegna mikilvægra og aðkallandi verkefna á sviði byggða- og þjóðmenningarverkefna sem talið er brýnt að bregðast við. Er þetta fjármagnað, hæstv. fjármálaráðherra? Hverjar eru forsendur þessarar fjármögnunar? Hvaða skýrslur liggja hér til grundvallar? Liggja 48 þverpólitískar tillögur því til grundvallar að það eigi að efla byggða- og þjóðmenningarverkefni? Hvar eru þær? Hvað er þetta? Og 15,5 milljónir af þessu eru hæstv. forsætisráðherra til ráðstöfunar til að gera upp hús. Er hann að fara að lakka glugga? Um hvað erum við að tala? Er búið að fjármagna það?

Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu.