143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

dómstólar.

201. mál
[11:01]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Við sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd flytjum þetta frumvarp öll í sameiningu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að við 1. málslið 3. mgr. 20. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður: „eða þegið setningu sem hæstaréttardómari samkvæmt 3. mgr. 9. gr.“

Í 20. gr. laga um dómstóla er fjallað um leyfi héraðsdómara frá störfum. Þeir geta ekki fengið leyfi frá störfum til lengri tíma en eins árs, það er meginreglan, hin almenna regla, nema um veikindi sé að ræða. Dómstólaráð getur veitt undanþágu til leyfis í lengri tíma, til mest 12 mánaða í senn, ef dómari leitar eftir því en það er þá í því skyni að afla sér frekari menntunar. Dómstólaráð setur að öðru leyti reglur um leyfi héraðsdómara frá störfum. Dómstólaráð veitir einnig leyfi vegna orlofs, auk þess að taka afstöðu til umsóknar um leyfi í öðru skyni.

Ef hæstaréttardómari fer til annarra starfa tímabundið, þ.e. hjá alþjóðlegri stofnun eða alþjóðlegum dómstól, þá er það heimilt í allt að sex ár. En í þeim tilvikum þegar héraðsdómarar fá setningu í Hæstarétti, vegna þess að hæstaréttardómari er með slíkt leyfi til að sinna störfum við alþjóðastofnun eða alþjóðadómstól, þá er það bundið við þá heimild að þeir geti einungis tekið slíkri setningu til eins árs í senn. Þegar héraðsdómari er settur í embætti hæstaréttardómara þarf hann því þegar árið er liðið að taka afstöðu til þess hvort hann vilji sleppa stöðu sinni við héraðsdómstólinn og taka lengri setningu í Hæstarétti. Þá stöndum við frammi fyrir því vandamáli að ekki er nægileg festa í störfum dómsins. Því þykir rétt að samræma þessi tímabil þannig að héraðsdómarar geti fengið lengra leyfi frá störfum en eitt ár og það sé þá til samræmis við sex ár eins og hæstaréttardómarar hafa.

Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið um dómstólana að gert sé ráð fyrir því að sams konar undantekningarheimild standi til, þ.e. að veita héraðsdómara leyfi í allt að sex ár vegna starfa hans við alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun. Þetta var hins vegar aldrei gert. Sömu sjónarmið búa hér að baki.

Herra forseti. Ég vonast til að þetta mál nái fram að ganga í þinginu og auðvitað verður fjallað um það í allsherjar- og menntamálanefnd.