143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið undrandi líka á því að menn tali hér um einhverjar hefðir um hvernig þetta sé kynnt. Það rifjaðist bara upp fyrir mér þegar hv. þingmenn voru að tala um þetta að þegar við fengum kynningu á Icesave þá var það á lokuðum fundum. Við fengum ekki gögnin afhent fyrr en eftir dúk og disk og þjóðin fékk engan aðgang að því, hvorki stjórnarandstöðuþingmenn né aðrir. Hér var þó talsvert annar háttur hafður á.

Ég ætla ekki að hrósa því verklagi sem hér var viðhaft á síðasta kjörtímabili og við getum svo sannarlega bætt okkur. Ef það er eindregin ósk frá stjórnarandstöðuþingmönnum að fá slíka kynningu hljótum við að skoða það. En ég vil bara minna á (Gripið fram í.) að þetta var kynnt fyrir opnum tjöldum frammi fyrir alþjóð og öll gögn liggja á netinu og allir geta kynnt sér málið. Vilji menn ítarlegri kynningu og óska eftir því munum við án efa skoða það með mjög jákvæðu hugarfari.