143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að ráðherrar koma svona vel undan helginni, telji sig núna hafa efni á höggunum. Það er spurning hvort sannast eftir á hið fornkveðna, að skamma stund verður hönd höggi fegin. Vonandi eru hæstv. ráðherrar ekki að taka út hinn glæsta sigur í of miklum mæli fyrir fram.

Það er munur á blaðamannafundi þar sem tiltölulega áróðurskennd framsetning þessara tillagna fer fram og verið að selja mönnum ágæti þeirra og hinu að fá kost á því að ræða við sérfræðinga og spyrja þá spurninga og fara yfir smáa letrið í þessu með þeim, þar á meðal frádráttarliði. Það er ýmislegt sem fór að koma í ljós daginn eftir og daginn þar á eftir en lítið var hampað á blaðamannafundinum. Það fór ein og ein fjöður að fjúka strax daginn eftir og daginn þar á eftir.

Ég hef engan áhuga á hinni áróðurskenndu framsetningu heldur hinu að komast í gögn og láta til dæmis sannfæra mig um að innstæða sé fyrir fullyrðingu um að þessar aðgerðir muni taka til 80% heimila í landinu. Ég fæ það engan veginn til að ganga upp, en ég er tilbúinn að hlusta á og fá fram rökin. Satt best að segja (Forseti hringir.) datt mér ekki frekar en öðrum annað í hug en að ríkisstjórnin mundi sjálf, að eigin frumkvæði, óska eftir því að kynna þessar tillögur sínar vandlega, hvort sem hún gerði það rétt fyrir eða rétt eftir blaðamannafundinn, þannig að ég undrast líka viðbrögð ráðherranna í því.