143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

þingstörfin fram undan.

[15:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Út af orðum hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar vil ég segja að ég hef aldrei þekkt þingmann sem kvartar undan vinnuálagi. Ég hef verið hér í fjögur ár. Ég hef þekkt þingmenn í gegnum árin, nokkuð marga, og hef aldrei heyrt neinn kvarta undan vinnuálagi og aldrei kvartað yfir því að þurfa að vera lengi.

Hins vegar er kvartað yfir skipulagi vinnunnar. Ég hef heyrt fólk úti í bæ, venjulegt fólk sem ekki situr á þingi, undrast það að hér sé unnið fram eftir kvöldi rétt fyrir þinglok. Ég tek undir það, við eigum að skipuleggja starf okkar betur. Þetta snýst um það en ekki um að við teljum eftir okkur að vinna á aðfangadag. Ég hef gert það alla mína ævi og geri enn. Þótt ég þurfi ekki að elda þarf ég svolítið annað að gera á aðfangadag. Það eru aðrir sem elda heima hjá mér. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Sem ég segi er enginn að kvarta undan (Forseti hringir.) vinnuálagi. Enginn. (Gripið fram í.)