143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

velferð dýra.

210. mál
[18:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Já, ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps sem var kynnt á fundi í atvinnuveganefnd fyrir nokkrum dögum, þessi breyting og útlistað hvers vegna hún kæmi til. Ég verð að segja eins og er að ég gat tekið undir þau sjónarmið sem þar komu fram. Þau voru á þann veg að ekki væri nauðsynlegt að hafa eftirlitsskyldu og komur á fyrirmyndarbú, við skulum bara segja það, bú sem kannski fær verðlaun fyrir allt saman sem þar er inni í myndinni, að ekki sé ástæða til að hafa svo mikið eftirlit á þannig stöðum. Þess vegna er aðalatriðið hér að þetta sé byggt á áhættuflokkun sem Matvælastofnun gerir. Ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að bú sem hún hefur heimsótt sé alltaf til fyrirmyndar þá tel ég að draga megi úr eftirliti og þar með kostnaði viðkomandi bónda, sem er mikið atriði. Matvælastofnun hefur þá meiri tíma og meiri möguleika á að heimsækja oftar býli sem kannski er kvartað undan eða býli sem stofnunin hefur gert athugasemdir við.

Það var þetta sem gerði það að verkum, virðulegi forseti, að ég legg nafn mitt við þessa tillögu og vil skoða þetta betur. En annars, eins og komið hefur fram, taka þessi lög gildi 1. janúar næstkomandi. Með þessu er ég sannfærður um að ekki sé verið að draga úr opinberu eftirliti, það getur minnkað á góðum búum en getur líka aukist hjá öðrum, það gefst þá meiri tími til að koma þangað oftar.

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að málið komi til atvinnuveganefndar eftir þessa umræðu og var um það rætt á fundi í atvinnuveganefnd þar sem einstakir nefndarmenn vildu skoða málið aðeins betur. Það leit út fyrir að atvinnuveganefnd gæti flutt þetta mál öll sömul en niðurstaðan varð þessi eftir að einn nefndarmaður vildi skoða það aðeins betur; og það er bara sjálfsagt. Þegar málið kemur til atvinnuveganefndar munum við fara betur yfir þetta mál. En ég verð að segja eins og er, og það er alveg eins með þetta og annað, að ég tel gott að dregið sé úr kostnaði þar sem hægt er en tek skýrt fram að með þessari breytingartillögu við greinina er ekkert sem kemur í veg fyrir að Matvælastofnun geti komið oftar á býli sem hún telur sig þurfa að koma oftar á og gera athugasemdir við; ef til dæmis berast kvartanir eða kærur, að það sé bara hið besta mál. En engin ástæða er til að hlaða kostnaði á þá sem allt er í lagi hjá.