143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðréttingar í fjáraukalögum til heilbrigðisstofnana.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt að fjáraukinn er að mörgu leyti uppgjör á árinu, fjárskuldbindingum og ákvörðunum sem stofnanir taka o.s.frv. Um fjáraukann og heimildir til að taka inn í hann gildir ákveðið regluverk. Þau tvö dæmi sem hv. þingmaður nefndi eru tvö af ærið mörgum skemmtilegum viðfangsefnum sem ég hlaut í arf við að reyna að fullnusta með einhverjum hætti innan heilbrigðismálanna.

Fyrra dæmið sem var nefnt var, sem eru álagsgreiðslurnar frá flensufaraldrinum í janúar og febrúar, gefur okkur tilefni til að ræða hvernig við ætlum stofnunum að taka á slíkum útgjöldum þegar þau koma upp. Það er rétt að fyrir liggja samþykktir fyrri ríkisstjórnar varðandi það mál.

Ég segi það sama varðandi húsaleiguna, þar liggur fyrir samkomulag milli fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins frá því í apríl. Raunar er stofn af þessu frá árinu 2008 en á árinu 2010 var samkomulag milli fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um að þetta uppgjör færi fram á árinu 2011, 2012, 2013 og svo yrði enginn afsláttur á árinu 2014. Þetta er allt óafgreitt.

Það væri mjög æskilegt að geta tekið þessi eldri mál inn og afgreitt þau, annaðhvort í fjáraukanum eða þá, eins og segir í póstum frá fjármálaráðuneytinu, í meðferð fjárlaganna. Ég játa það fyrir hv. þingmanni hér í heyranda hljóði að ég er mjög bjartsýnn á að það verði brugðist við af hálfu fjárlaganefndar Alþingis miðað við orð forsvarsmanna nefndarinnar í fjölmiðlum síðustu daga, sem ég vænti að hv. þingmaður hafi sömuleiðis orðið var við.