143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

niðurskurðartillögur fjárlaganefndar.

[14:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við fengum að heyra í gær frá hv. formanni fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, að til stæði að grípa til alvarlegra niðurskurðaraðgerða vítt og breitt í hinum viðkvæmasta ríkisrekstri undir því yfirskyni að slíks væri þörf til að bregðast við brýnni fjárþörf á Landspítalanum. Nú hefur margsinnis verið bent á aðra kosti til að bæta úr því sem úrbóta er þörf á Landspítalanum en niðurskurð í velferðarþjónustu. Þegar horft er á þetta blasir við hversu sérkennileg forgangsröðun er þarna í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar, að draga saman vaxtabætur og barnabætur þannig að meðaltekjuhjón með mikla skuldabyrði og þrjú börn muni tapa tugum þúsunda á breytingunni, skera niður í þróunaraðstoð, auka enn á niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu og skera niður starfsendurhæfingu þar sem menn ganga gegn samningsbundnum skyldum ríkisins.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig þetta komi heim og saman við sýn ríkisstjórnarinnar að öðru leyti. Nú hefur hann oft talað um að það þurfi að mæta með sérstökum hætti fólki í greiðsluvanda, fólki sem er með þunga skuldabyrði vegna þess að hinar almennu aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni ekki duga fyrir þann hóp. Nú er akkúrat verið að fara alveg nýjar brautir til að taka peninga af því fólki sem er með þunga skuldabyrði og mikla greiðslubyrði.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvernig getur ríkisstjórnin lagt mál upp með þessum hætti? Þegar maður horfir líka á viðbrögð aðila vinnumarkaðarins er eins og sprengju hafi verið varpað í mjög erfitt ástand á vinnumarkaði akkúrat núna.