143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[14:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæða frumvarp sem er breyting á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, sem sett var árið 2011, gamalt baráttumál okkar jafnaðarmanna sem flutt var hér á þessum tíma af hv. þm. og þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árna Páli Árnasyni. Hann lagði þetta mál fram hér og skapaðist víðtæk samstaða um það, settar voru í það 200 milljónir, sem voru alltaf hugsaðar sem upphafsgreiðslur sem þyrfti að auka. En reynslan af þessum lögum er góð. Við sjáum að greiddar voru út um 165 millj. kr. á síðasta ári og er aðalatriði þessa frumvarps að framlengja þessi lög til 31. desember 2020.

Ég fagna því alveg sérstaklega að þetta baráttumál skuli hafa náð fram að ganga og að við séum nú að framlengja tíma þess hér og ljúka þeirri óvissu sem virtist skapast með tilkomu þessarar ríkisstjórnar þar sem eitthvað var á reiki um hvort framlengja ætti að lögin eða ekki. (Forseti hringir.) Hér eru þau framlengd og ég þakka aftur fyrir að þau skuli hafa komið hér inn og verið borin fram af okkur jafnaðarmönnum.