143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur nokkuð á óvart að stjórnarmeirihlutinn í fjárlaganefnd hafi ekki samráð við sína eigin ráðherra í ríkisstjórn Íslands um afgreiðslu fjárbeiðna í fjáraukalögum og sérstaklega bagalegt þegar um er að ræða, að minnsta kosti að því er virðist vera, mjög efnislega og málefnalega ósk um að bæta tjón sem enginn hefur getað gert ráð fyrir í neins konar rekstraráætlunum, hvorki í því ráðuneyti sem í hlut átti eða á öðrum þeim stöðum þar sem atburðir af þessu tagi, fjárdráttur, koma upp.

Ég hvet nefndina til þess, milli 2. og 3. umr., að fá hæstv. utanríkisráðherra á sinn fund og fara með honum í gegnum þetta mál, hvernig það er vaxið, þannig að við getum þá fengið tillögu um að ekki þurfi að taka það út á rekstri utanríkisþjónustunnar þó að hún verði fyrir þeirri ógæfu að þar fremji menn fjárdrátt.