143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Frumvarp til fjáraukalaga 2013 var lagt fram óvenjuseint eða 26. nóvember síðastliðinn. Þar að auki komu breytingartillögur meiri hlutans líka mjög seint, ekki fyrr en 6. desember, og það eykur aðeins flækjustigið. Minni hlutinn hefur gagnrýnt þetta verklag því að mjög gott væri að fá nægan tíma til að vinna svona stór mál sem taka sífellt breytingum, alveg fram á síðasta dag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs lækki mjög mikið og þótt gert sé ráð fyrir auknum tekjum núna seinni hluta árs er það nokkuð undir áætlunum miðað við fjárlög 2013. Ástæðurnar fyrir tekjulækkun eru, eins og hefur verið rakið hér í ræðustól, meðal annars ákvarðanir stjórnvalda um að lækka veiðileyfagjald og hækka ekki virðisaukaskatt á gistingu eins og fyrirhugað var, úr 7% í 14%. Þá gekk sala eigna ekki eftir og skatttekjur voru minni en áætlað var vegna minni umsvifa í hagkerfinu.

Síðan virðast vera einhverjar tafir á tekjum vegna sykurskatts á árinu 2013, sem vonandi skilar sér á næsta ári, og svo hafa framlög vegna IPA-styrkja lækkað og fallið niður eins og frægt er orðið. Þá má segja að það að stjórnvöld skyldu ákveða að fresta aðildarviðræðunum hafi valdið okkur fjárhagslegu tjóni.

Mig langar aðeins að fara yfir hlutverk fjáraukalaga vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt þegar maður fær frumvarpið í hendurnar að horfa á hvern einasta lið út frá 44. gr. í lögum nr. 88/1997. Þar segir:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum, sbr. 45. gr.“

Þarna kemur mjög skýrt fram að fjáraukalögum er fyrst og fremst ætlað að bregðast við ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Öllu sem er fyrirsjáanlegt á auðvitað að koma fyrir í fjárlögum hvers árs. Þetta er áréttað í minnisblaði Ríkisendurskoðunar frá 6. desember 2013.

Minni hlutinn tiltekur þó nokkuð mörg dæmi sem hann telur ekki ófyrirséð og þau hafa verið rakin hér í dag. Ég ætla rétt að drepa á þeim. Mér finnst sérstaklega áhugavert dæmið um 14 millj. kr. fjárveitingu til forsetaembættisins vegna ótal liða eins og endurnýjun á bílakosti, smíði á fálkaorðum, heimsókn Margrétar Danadrottningar og þar fram eftir götunum. Þetta eru allt atriði sem gera á ráð fyrir í fjárlögum ársins, þau eru ekki ófyrirséð. Ég þekki Dani, ég bjó í Danmörku, og þeir ákveða ekki með stuttum fyrirvara hvert þeir fara í heimsókn, þeir eru mjög agaðir hvað það varðar. Mér finnst því ekki hægt að samþykkja slíka fjárveitingu sem getur í rauninni átt við um hverja einustu ríkisstofnun. Þær eru margar sem fara fram úr fjárlögum og það á ekki að sækja í fjáraukann heldur verður að reyna að rétta af á næsta ári. Þannig skil ég það.

Ríkisstjórnin fer fram á 97 millj. kr. framlag sem skýrist að hluta til af því að ný ríkisstjórn tók við völdum og gera þarf upp biðlaun, orlof og annað slíkt. Eðlilegt væri að gera ráð fyrir auknum útgjöldum á kosningaári, a.m.k. einhverri upphæð, í staðinn fyrir að sækja hana alla í fjáraukann.

Á síðasta kjörtímabili var ráðuneytunum fækkað úr tólf í átta. Ég var mjög ánægð með þá ráðstöfun og fannst hún lýsa aðhaldi í ríkisrekstri. Á sama tíma var ákveðið eða reglur settar um að ráðherra mætti hafa fleiri en einn aðstoðarmann. Nú hefur ráðuneytum verið fjölgað úr átta í níu og aðstoðarmönnum hefur líka fjölgað og eru þeir jafnvel orðnir 17, það er talan sem ég heyrði síðast. Við gagnrýnum að ríkisstjórnin skuli ekki líta í eigin barm á tímum niðurskurðar og hagræðingar.

Kostnaður vegna rannsóknarnefnda fer langt út fyrir það sem áætlað var. Við erum alveg sammála meiri hlutanum í því að vanda þarf miklu betur til verka ef og þegar verður farið í nýjar rannsóknir eða þegar nýjar rannsóknarnefndir hefja störf. Mikill agi þarf að vera á verklaginu, tímaáætlunum og algjörlega að koma í veg fyrir að þetta sé eins og opinn tékki, það er ekki ásættanlegt.

Það er liður sem mér finnst mjög merkilegur sem kallast Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Þetta er í rauninni nýr fjárlagaliður, sem er líka athyglisvert á fjáraukalögum, þar sem sótt er um 165,5 millj. kr. framlag sem er skipt á milli Þjóðminjasafnsins og Minjastofnunar. Ég dreg ekki í efa að þær stofnanir séu fjársveltar, eins og svo margar aðrar, og það er frábært fyrir þær að fá tugi milljóna meðgjöf í ár. Mér finnst þetta þó sérkennileg meðferð á almannafé og eitthvað sem á ekki að koma inn í fjáraukann. Við getum til dæmis horft á framhaldsskólana sem eru margir hverjir mjög fjársveltir og veitti ekki af smáinnspýtingu.

Undir þeim sama lið er farið fram á 15,5 millj. kr. framlag í mjög óskilgreint verkefni. Það virðist snúa að nýju frumvarpi um verndarsvæði í byggð og því að ráða eigi sérfræðinga og ráðgjafa til að sinna því en vinnan virðist samkvæmt greinargerðinni ekki hafin. Það flokkast ekki sem óvænt útgjöld. Eðlilegra væri að þetta færi inn á fjárlög næsta árs.

Ég gerði líka athugasemdir við það í minni hlutanum að mörg verkefni á sviði þjóðmenningar flytjast á miðju ári úr menntamálaráðuneyti yfir í forsætisráðuneytið. Ástæðan er, alla vega hin opinbera ástæða, sérstakur áhugi hæstv. forsætisráðherra á málaflokknum. Eins var Hagstofan flutt til forsætisráðuneytisins. Við veltum fyrir okkur og vitum ekki til þess að farið hafi fram eitthvert faglegt mat eða greining á því hvar þessum verkefnum er best fyrir komið. Við gagnrýnum líka að verið sé að flytja til málaflokka á miðju ári. Það eykur flækjustig og við fengum staðfestingu á fundi ráðuneytisins á því að það kallar á aukna vinnu. Eðlilegra væri, ef menn vilja vera að færa til málaflokka, — og það er svo sem gert í öllum löndum og menn geta haft sínar skoðanir á því — að gera það um áramót á nýju bókhaldsári.

Það hefur nokkuð verið talað um ónýtta heimild vegna verkefnisins Nám er vinnandi vegur, þær 300 miljónir sem er í rauninni veitt í ný verkefni á næsta ári. Við gagnrýnum það. Þótt við höfum alveg skilning á því að ráðuneytið vilji nýta þá peninga er hreinlegra að framlagið fari inn á fjáraukalög 2014. Meiri hlutinn er sammála okkur í því og gagnrýnir þessi vinnubrögð — hvernig orðar hann þetta nú — hann beinir þeim tilmælum til ráðuneyta að taka upp ný vinnubrögð en virðist samt ætla að samþykkja þetta í frumvarpinu. Mér finnst það vera vandamálið í hnotskurn, aginn er ekki meiri þegar upp er staðið, við gerum athugasemdir en svo fer þetta samt í gegn. Síðan krossleggjum við bara fingur og vonum að fjáraukinn á næsta ári verði betri.

Hæstv. utanríkisráðherra benti áðan á það sem varðar fjárdrátt í sendiráðinu í Vín og þá fjárheimild sem utanríkisráðuneytið fer fram á — rétt er að taka fram að minni hlutinn er samþykkur þeirri beiðni, hann er sem sagt ekki sammála meiri hlutanum í því máli vegna þess að ef þetta eru ekki ófyrirséð útgjöld, hvað þá? Menn geta samt alveg tekið þá ákvörðun að þetta sé á ábyrgð ráðuneytisins en það eru orðin nokkuð mörg ár síðan. Við gerum ekki athugasemdir við þetta þótt það sé vissulega óheppilegt og við mundum vilja fá staðfestingu á því að vinnubrögðum hefði verið breytt í framhaldinu þannig að það geti ekki gerst aftur. Ég tel þó að utanríkisráðuneytið eigi samt, ef vilji er fyrir því, að geta fundið þessa peninga einhvers staðar en þetta sýnir hvernig fólk getur greint á þegar kemur að því hvað á heima í fjáraukalögum og hvað ekki.

Það eru nokkrir útgjaldaliðir. Við tiltökum Landspítalann þar sem óvenjuskæðir faraldrar gengu yfir og áætlað að þeir hafi kostað spítalann um 125 milljónir. Fyrri ríkisstjórn samþykkti tillögu um að Landspítalinn þyrfti ekki að skera niður heldur fengi þetta bætt á fjáraukalögum, en ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu eða breytingartillögum meiri hlutans. Við gerum því þá breytingartillögu um að sú upphæð fáist bætt í fjárauka eins og um var samið. Ef menn vilja svo draga það af fjárlögum næsta árs er hægt að gera það.

Við tiltökum einnig jafnlaunaátak fyrri ríkisstjórnar sem hefur valdið auknum útgjöldum á árinu og kom fram í fjáraukalögum. Síðan var ráðist í átak og ýmis verkefni vegna kynferðisofbeldis gegn börnum. Við ítrekum að þetta er fjárveiting sem fer á marga staði í stjórnsýslunni og heyrir undir þrjú ef ekki fjögur ráðuneyti. Því er mjög mikilvægt að haldið sé utan um verkefnið og alveg tryggt að framlagið nýtist í það. Þetta voru mjög margir liðir og var dreift mjög víða og þá er hætta á að yfirsýn glatist og peningarnir fari kannski í eitthvað annað. Heimildin var fyrir þessum verkefnum og þá eiga þeir að fara í þau.

Einnig voru áform um gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn sem hafa kallað á aukin fjárútlát og falla til 45 milljónir á fjáraukalögum.

Það hefur verið talað um fjarskiptasjóð. Mér finnst það svolítið flókið mál og ég verð að segja alveg eins og er að ég skil það ekki alveg. Eins og ég skil málið er ekki gert ráð fyrir því að þessar 195 milljónir, sem eru markaðar tekjur, gangi til sjóðsins sem getur þá nýtt þær við aðgerðir til að bæta netsamband og fjarskiptaþjónustu úti um land heldur renni hugsanlega til Farice. Það getum við ekki samþykkt.

Fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem var unnin í samstarfi við formann Bjartrar framtíðar hugnast nýrri ríkisstjórn ekki og þar hafa flestir liðir verið skornir niður en markmiðið var að auka fjárfestingu og fjölga störfum. Meðal þess sem er skorið niður á fjáraukanum eru framlög til að mæta auknum fjölda ferðamanna og byggja upp innviði á friðlýstum svæðum. Það er verkefni sem mér finnst sérstakt áhyggjuefni hversu lítið fjármagn við setjum í, í uppbyggingu ferðamannastaða til að bregðast við mjög miklum ágangi sem er raunverulega að skemma marga staði. Það er ekki seinna vænna að fara að bregðast við því á einhvern hátt.

Hvað varðar Atvinnuleysistryggingasjóð gerum við breytingartillögu um að leyfð verði útgreiðsla desemberuppbótar til atvinnulausra. Svo minnumst við á Íbúðalánasjóð sem er veikasti hlekkurinn í útistandandi ríkisábyrgðum, sem nema nálægt 940 milljörðum kr. Búið er að afskrifa 40 milljarða eiginfjárframlög til sjóðsins frá árinu 2010 og manni fallast eiginlega hendur. Þetta er ekki öfundsvert verkefni að takast á við, þetta mál, en er eitthvað sem ríkisstjórnin og Alþingi allt verður að gera, eitt af stærri verkefnunum núna.

Það vakti líka athygli að mjög margir liðir eru undir velferðarráðuneytinu í fjáraukanum núna. Það er auðvitað stórt ráðuneyti og kannski að mörgu leyti erfitt að áætla þau útgjöld sem þar eru, en að manni læðist sá grunur að verið sé að vanáætla mjög marga liði. S-merktu lyfin eru sérstakt áhyggjuefni en það eru fleiri liðir eins og hjálpartæki, lækniskostnaður o.fl. sem fara mjög mikið fram úr áætlun.

Ætli ég hafi það ekki sem lokaorð að nú er ég að þessu í fyrsta skipti og þetta er allt voða spennandi og skemmtilegt og vinnulagið líka áhugavert. Eins og ég sagði áðan væri ég alveg til í að sjá betri verkstjórn. Ég veit að fjárlaganefnd og formaður fjárlaganefndar stjórnar því auðvitað ekki hvenær breytingartillögurnar koma eða hvernig þetta er, það er samspil margra þátta, en ég held að mjög gott væri að við reyndum að vanda okkur betur næst og hafa í huga að fjárlög og fjáraukalög eru lögð fram á hverju einasta ári. Það er ekkert nýtt, þetta er búið að gera mjög oft áður þannig að horfa mætti til reynslunnar og reyna að laga þetta í sameiningu. Það er alls ekki þannig að ég sé að ásaka meiri hlutann um eitt né neitt þegar ég kalla eftir betri vinnubrögðum, ég væri kannski sjálf í sömu stöðu ef ég væri hinum megin við borðið, en við ættum að reyna að bæta þetta saman. Ég held að allir séu í sama liði hvað það varðar.

Ég vil ítreka að ég lít svo á og skil lögin þannig að fjáraukinn eigi að vera pínulítill snepill með einungis því sem var óvænt og ófyrirséð, sem er kannski kal í túni eða jafnlaunaátak og löggjöf sem er sett á miðju ári. Maður getur svo líka haft þá skoðun að ekki sé gáfulegt að setja löggjöf á miðju ári sem er mjög kostnaðarsöm. Fjáraukinn hefur verið að minnka undanfarin ár en hefur vaxið alveg undir það síðasta. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Ég hef aldrei fengið neinn til að fara í andsvör við mig þannig að ég er nokkuð stressuð yfir því.