143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er eiginlega sá að þegar hæstv. ríkisstjórn tók við og forustumenn hennar komu fram í sumarbyrjun fóru þeir í sérstakt úthlaup til að reyna að koma þeim skilaboðum út í samfélagið að þeir væru að koma að hryllilegu búi og allt öðru og verra en þeir höfðu átt von á.

En hvað var svo gert í framhaldinu? Það fyrsta sem var gert var að lækka tekjur ríkisins. Augljósa svarið er náttúrlega að það áttu menn að láta vera. Ef það var þannig, sem upp að vissu marki var vissulega rétt, að horfurnar væru að þyngjast vegna veikari hagvaxtar þá hefði það átt að vera um það bil það síðasta sem mönnum dytti í hug að veikja tekjugrunninn sjálfan. Menn verða líka að átta sig á því að þegar tekjur af þessu tagi eru teknar út og svo ákveðið að hafa ekki 14% virðisaukaskatt af hótelgistingu þá er ekki verið að gera það bara í eitt skipti, heldur er líka verið að afsala ríkissjóði framtíðartekjum. Það er því óskaplega skammsýnt að rjúka af stað með eitthvað áður en menn hafa séð myndina fyrir sér og horft til framtíðar og áttað sig á því hvernig eigi að takast á við vandann í heild.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss um að hægt hefði verið að gera stóra hluti sem hefðu nægt til þess að ná þessu aftur algerlega inn á áætlun. Það hefði þurft umtalsvert átak til þess sem hefði kannski orðið erfitt eftir að komið var inn á mitt ár. Fyrir slíku eru þó auðvitað fordæmi, samanber hinar miklu aðgerðir 2009, en þetta er allt orðið býsna miklu þrengra nú vegna þess hversu mikið er búið að gera að undanförnu. Enda má jafnvel deila um það líka við núverandi aðstæður hvers konar blöndu af aðgerðum er skynsamlegast að fara í út frá hagvaxtarhorfum einfaldlega og öðru slíku. Það er ekki víst að það sama eigi við í dag og gat átt við 2009 eða 2010.

Við ræddum einmitt fyrr í þessari umræðu um kælingarhættuna fyrir hagkerfið ef menn fara þá leið að afla engra tekna og skera bara niður. Á því er sá augljósi skavanki að það er líklegt að það kæli hagkerfið niður. Ég er því ekki viss um að maður hefði talið skynsamlegt efnahagslega að fara í stórfelldar ráðstafanir, enda ætti þess ekki að þurfa að því tilskildu að menn nái markinu um hallalaus fjárlög á næsta ári sem ég tel enn að sé afar mikilvægt að stefna að og ná fram.