143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að nú eru fram undan annasamir tímar hjá okkur þingmönnum og má segja að þeir hafi hafist í gær af fullum þunga.

Það sem ég vildi vekja máls á hér er að á undanförnum þingfundum hafa þingmenn, og þá oftast þingmenn minni hlutans, kvatt sér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta. Þar hafa þeir verið að leita eftir svörum frá stjórnarmeirihlutanum og forseta þingsins um stöðu mála og dagskrána sem fram undan er vegna þess hversu seint breytingartillögur við fjárauka og fjárlög eru lögð fyrir þingið. Það hefur komið mér á óvart að stjórnarþingmenn taka það óstinnt upp og láta í skína að málshefjendur séu að reyna að koma höggi á einstaka þingmenn eða á ríkisstjórnina.

Ég spyr: Er það ekki hlutverk minni hlutans að kalla eftir svörum ef hann telur sig ekki hafa þau? Og er það ekki hlutverk minni hlutans að veita ríkjandi stjórnvöldum aðhald?

Í 5. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað er um lýðræðislega umræðu segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Umræðuhlutverki þingsins eru gerð góð skil af íhaldsmanninum Edmund Burke þegar hann lýsir þinginu sem umræðusamkomu einnar þjóðar með sameiginlega hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Þar ættu staðbundnar óskir eða fordómar ekki að ráða ferðinni heldur hagur heildarinnar sem má leiða af yfirvegun heildarinnar. Hugtakið samræðustjórnmál á rætur sínar að rekja í þessa hugsjón um þingið sem vettvang rökræðu sem tekur öðru fremur mið af almannahagsmunum. Markmið rökræðu er að lýsa upp málefni, því verður hún að byggjast á upplýsingum um staðreyndir mála. Sá sem stundar rökræðu af heilindum leitast við að hafa það sem sannara reynist. Gildi stjórnmálarökræðunnar er meðal annars fólgið í því að láta andstæð sjónarmið takast á og það er hlutverk stjórnarandstöðu að láta reyna á málflutning stjórnarliða til að skerpa röksemdir.“

Svo mörg voru þau orð og ég hvet okkur þingmenn enn og aftur til þess að bera virðingu hvert fyrir öðru, sýna auðmýkt og vera mjúklynd í hjarta í störfum okkar á komandi dögum og um alla framtíð. Höldum áfram með bjartsýni og sáttfýsi að leiðarljósi. Gangan verður okkur auðveldari ef við horfum fram á veginn heldur en ef við lítum sífellt um öxl.