143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Margar ræður voru fluttar hér um fjáraukalagafrumvarpið í gær. Sem tiltölulega nýr þingmaður undraðist ég orð sumra stjórnarandstöðuþingmannanna því að fjáraukalög eru eðli máls samkvæmt aðallega uppgjör um vanáætlanir fjárlagagerðar fyrra árs. Mér fannst að þau hefðu frekar átt að athuga að það er ákveðið agaleysi sem felst í fjárlagagerð ef bæta þarf mikið í varðandi fjáraukalög.

Ég er ekki hingað komin til að dvelja við neikvæðni, það er nóg af henni hér, vegna þess að í mínum huga lofar framtíðin mjög góðu. Fréttir sem berast nú til okkar og einnig það sem við sjáum í skjölum hér á þinginu sýna að algjör umsnúningur er að verða varðandi fjárhag þjóðarinnar og stórbættan hag heimila í landinu.

Staðinn er dyggur vörður um félags- og heilbrigðismál. Í þingskjölum má sjá að verið er að setja allt að 6 þús. millj. kr. til viðbótar í almannatryggingar og þá mest til styrktar eldri borgurum en einnig til öryrkja. Þannig er verið að draga til baka skerðingar sem eldra fólk varð fyrir á síðasta kjörtímabili.

Ég las í blöðum í dag viðtal við fjármálaráðherra þar sem hann greinir frá að um 4 þús. millj. kr. komi til viðbótar í heilbrigðismálin. Þá les ég einnig út úr fjárlagafrumvarpinu að um 5 þús. millj. kr. fari í skattalækkanir á næsta ári. Þá vil ég benda á skuldaleiðréttinguna fyrir heimilin sem er metin upp á 20 þús. milljónir sem forsætis- og fjármálaráðherrar kynntu hér fyrir skemmstu.

Ef ég kann að reikna gerir þetta samtals 35 þús. milljónir eða 35 milljarða kr., 35 milljarða til bjargar og eflingar heimilum þessa lands og samt tekst ríkisstjórninni að halda sig við hallalaus fjárlög.

Þá liggja á borðum okkar frumvörp til frekari stuðnings (Forseti hringir.) fólki sem komist hefur í algjöra neyð með frestun á nauðungarsölu og til þess að greiða gjald vegna gjaldþrotamála. (Forseti hringir.) Við hjálpum ungu fólki eða réttum því hjálparhönd við kaup á sínum fyrstu íbúðum með því að veita afslátt af stimpilgjöldum. Svona gæti ég lengi talið.