143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því að hér þarf að bæta vinnubrögð og ekki bara nú heldur í náinni framtíð. Mig langar engu að síður, vegna þeirra orða sem hafa fallið hér, að upplýsa að 26. nóvember árið 2012 voru lagðar fram tillögur ríkisstjórnar til breytinga á fjárlögum og meiri hlutinn gerði þær að sínum að morgni 26. nóvember. Á sama tíma lá fyrir nefndarálit frá meiri hlutanum, drög að nefndaráliti. Þær tillögur sem meiri hlutinn gerði að sínum hafði minni hlutinn aldrei séð fyrr en að morgni 26. nóvember, honum gafst ekki tækifæri til að skoða þær, málið var tekið út úr nefnd, drög að nefndaráliti lágu fyrir og við sem vorum í nefndinni og í minni hluta sögðum að við mundum koma með nefndarálit minni hlutans vegna þess að okkur gafst ekki tækifæri til að fara (Forseti hringir.) yfir tillögurnar. Þær voru kynntar og afgreiddar út úr nefnd á sama fundi, 26. nóvember 2012. Þannig var það.