143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að hvetja til lögbrota, eins og skilja mátti hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, langt í frá. Ég var að ræða að menn gætu bætt vinnubrögð sín nú, sem fyrr og endranær. Ég tel farsælast að forseti fresti fundi um nokkrar mínútur og taki afstöðu til þess sem hér hefur komið fram — það er alveg ljóst að 29. gr. er klár, það þurfa að liggja fyrir drög eða tillaga að nefndaráliti — og gengið verði frá því. Þannig getum við lokið þeirri umræðu sem þarf að fara fram og þurfum ekki að karpa um smáatriði, eða ekki smáatriði heldur stór atriði í þessu tilviki, til eða frá. Það er farsælast að forseti geri hlé á fundi svo hægt sé að framfylgja þeirri skyldu að leggja fram drög að nefndaráliti eða tillögu að nefndaráliti til að hægt sé að taka málið út.