143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum að sjálfsögðu styðja þessa tillögu (Gripið fram í.) því að það skiptir gríðarlegu máli að við í þessum sal ræðum um það hvernig við viljum byggja upp atvinnu til framtíðar. Það skiptir gríðarlegu máli að við byggjum upp atvinnu sem ekki gengur um of á takmarkaðar auðlindir okkar. Það er lykilatriði ef við ætlum að byggja hérna sjálfbært samfélag og þess vegna skiptir fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun öllu máli. Það þarf ekkert að leita víða fanga í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið, fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun skilar sér beint í aukinni hagsæld fyrir samfélagið þannig að við styðjum þetta og vonumst til þess að breytingar verði líka gerðar á þeim breytingum sem eru lagðar til á markáætlun í þessu fjáraukalagafrumvarpi og vonumst til þess að þegar fjárlögin verða tekin til umræðu verði haldið áfram að efla rannsóknir og nýsköpun í fjárlögum næsta árs.