143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að bandormarnir eða tengd frumvörp með fjárlagafrumvarpinu komu fram samhliða því nú í haust. Það er auðvitað gott, en þau komu þremur vikum seinna en þingsköp og lög gera ráð fyrir. Það var vegna þess að hæstv. ríkisstjórn grét hér út þriggja vikna viðbótartíma til að koma saman sínu fjárlagafrumvarpi, og virðist nú ekki hafa veitt af vegna þess að ríkisstjórnin virðist ekki enn vera komin með það á hreint hvernig hún vill hafa þetta, samanber vandræðaganginn við afgreiðslu fjáraukalaga hér; og bandormarnir komu fram á þeim tíma. Þannig að það var auðvitað skilningur manna að með því að veita ríkisstjórninni þennan viðbótartíma næði hún að klára málin eins og ætlunin er að gera nú samkvæmt nýju skipulagi sem við höfum verið að reyna að koma hér á í áföngum. Einmitt í haust átti í fyrsta sinn að gilda ákvæði þingskapanna um að bandormarnir fylgdu frumvarpinu og kæmu fram annan mánudag eða þriðjudag í september. Það höfum við verið að gera, meðal annars til þess að þingið hefði meiri tíma til að vinna málin á haustinu og fjárlagaundirbúningurinn væri tímanlegar á ferð á árinu. Það er hluti af ýmsum umbótum sem menn hafa hugsað sér að gera og eru að reyna að koma á í áföngum í sambandi við undirbúning fjárlaga, eftirfylgni fjárlaga og opinber fjármál eða fjárreiður. Þannig að við því miður lentum aftur á bak í þessu ferli með því að ríkisstjórnin varð að fá þennan viðbótarfrest þarna í haust.

Varðandi svo það hvað er í þeim nýju málum sem koma inn við 2. umr. getur vel verið að hv. þingmanni virðist þetta hið besta mál að taka upp sjúklingaskatta á spítölum, en það er mjög stórt og umdeilt pólitískt mál og tengist grundvallarstefnu í heilbrigðismálum sem mjög skiptar skoðanir geta verið um. Auðvitað takmarkar það bæði tíma og ræðutíma og svigrúm þingsins að fá ekki nema tvær umræður og örfáar vikur til að takast á við slíkt stórpólitískt mál. Þannig að hv. þingmaður hefði kannski betur sleppt því bara að minna á það. (Forseti hringir.) Eitt af því sem á að taka svona inn núna eru innritunargjöld á sjúkrahús.