143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég styð það heils hugar og mér er kunnugt um það að hv. þingmaður hefur lagt fram breytingartillögu þessa efnis við fyrirliggjandi frumvarp. Það er ágætt að fá þessa tölu upp á borðið. Ég var búinn að reikna það út á síðasta kjörtímabili að hækka þyrfti hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs um 0,07% á einhverjum tímapunkti til að ná mjög góðum markmiðum sem þá voru í umræðunni varðandi sjóðinn. Ég minntist á það í ræðu minni áðan að þetta verkefni væri vel gerlegt, að hafa Fæðingarorlofssjóð eins og hann er. Hann er frekar lítill hluti af tryggingagjaldinu og vissulega þröngt um vik fyrir Fæðingarorlofssjóð í kreppunni miðri vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður tók ansi mikið til sín af þessum skatti. En nú er annað uppi á teningnum og nú eru forsendur til þess einmitt að fara í 0,1% hækkun á hlutdeildinni. Þá getum við náð ansi góðum pólitískum markmiðum með Fæðingarorlofssjóðinn, bara spurning um vilja.