143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get vel tekið undir að það er við því að búast að ríkið þurfi að vera með talsvert drjúgan hlut af rannsókna- og þróunarframlögum í hagkerfi eins og okkar sem er tiltölulega fábreytt í tegund atvinnustarfsemi. Engu að síður tala tölurnar sínu máli um að við skerum okkur að minnsta kosti ekki úr og ef eitthvað er erum við í efri hlutanum þegar kemur að samanburði innan OECD, a.m.k. í efsta þriðjungnum.

Varðandi ástandið í hagkerfinu og landsframleiðsluna virðast nýjustu tölur vera vísbending um að það sé nokkru meiri kraftur í hagkerfinu en við þorðum að vona. Það að landsframleiðsla hafi vaxið um 3% á fyrstu níu mánuðunum bendir til þess að við verðum tryggilega fyrir ofan 3% þegar upp er staðið. Jafnvel þótt búast megi við því að þessar tölur verði endurskoðaðar síðar er þetta það sem við höfum í höndunum í dag og þetta er jákvæð vísbending. Í ljósi þess að kannski horfir ekki neitt sérstaklega vel með framkvæmdir í Helguvík í augnablikinu eru það góð tíðindi. Hins vegar væri auðvitað mikil synd ef sú mikla vinna sem þar hefur verið unnin og sú mikla fjárfesting sem þegar er komin þar nýtist ekki á næstum, í kringum 20 milljarða fjárfesting er nú þegar komin í undirbúningsframkvæmdir. Það væri líka synd ef ekki væri hægt að nýta þá orku sem er tilbúin á þeim forsendum einum að ekki semst um verð til að fara að framleiða hér verðmæti. Það væri mikil synd og við sæjum afleiðingar af því (Forseti hringir.) í hagkerfum næstu ára.