143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að reyna einhvern veginn að búa til ramma utan um endurgreiðslurnar eru í fyrsta lagi 20% og þá er hægt að fá allt að 20% endurgreitt. Ef verkefnið er stórt er líka þak þannig að þótt það séu 20% eru margir sem geta ekkert fengið það vegna þess að þakið takmarkar hversu háa upphæð er hægt að fá í endurgreiðslu. Það eru því tvenns konar breytur sem búa þennan ramma til.

Það sem er verið að gera hér er að í staðinn fyrir að lækka prósentuna úr 20 í 15, sem var galin hugmynd að mínu mati, alveg eins og öll veiklun á þessu kerfi er, ákveða menn að lækka hámarksupphæðina. Það hefur í för með sér og þýðir að hætt er við að við missum stærri verkefnin (Forseti hringir.) úr landi vegna þess að verið er að keppast um þau verkefni. Það getur verið afleiðingin.