143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka örlætið. Virðulegur forseti hefur áttað sig á því hve mikill aðdáandi næturfunda sú er sem hér stendur. Hvað þessa sýn varðar nefndi ég það áðan að við höfum auðvitað skýr dæmi um það frá Norðurlöndum þar sem ekki eru innheimt skráningargjöld eða innritunargjöld, þar eru ekki innheimt gjöld, að þar er eigi að síður talsvert minna brottfall en við eigum við að stríða í háskólakerfinu hér. Ég nefndi áðan í ræðu minni að ég teldi að það lyti kannski að því að þar hefur menningin verið sú að nemendur eru fremur að keppast við að komast í tiltekna skóla í tiltekin fög því að þar er talsvert meiri stýring á fjölda þeirra rýma sem í boði eru á hverju sviði. Það hefur ekki verið menningin hér.

Ég hef nefnt það á fundum við háskólamenn að ástæða sé til þess að við förum að ræða eitthvað slíkt í íslenska háskólakerfinu, að við förum að velta þessu fyrir okkur því að það held ég að sé hluti af ákveðnu þroskaferli íslenska háskólastigsins.