143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er hætt við því að þegar farið er út á þessa braut verði haldið áfram. Ég rakti það í fyrri ræðu minni í kvöld hvernig byrjað var að búa í haginn fyrir þessa vegferð í byrjun tíunda áratugarins. Þá deildum við um það við kjarasamningsborð hvort setja ætti á tiltekin gjöld innan sjúkrastofnana. Ég minnist þess og gat um það í ræðu minni að okkur hefði verið sagt að þetta væri prinsippmál vegna þess að menn væru með þessu að stuðla að kerfisbreytingu í fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Síðan höfum við séð hvernig þetta hefur vaxið stig af stigi á undanförnum árum. Ég held að við eigum að snúa af þeirri braut.

Varðandi ohf., ég tel að það þurfi að myndast sátt um Ríkisútvarpið. Ég held að við höfum öll verið sátt (Forseti hringir.) og ósátt við Ríkisútvarpið eftir atvikum (Forseti hringir.) í tímans rás en það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við reynum að finna einhvern samnefnara sem við getum sameinast um.