143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

vinna breytingartillagna við fjárlög.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég kannast reyndar ekki við þær miklu átakalínur sem mér finnst hv. þingmaður draga hér upp á milli fjármálaráðuneytis og meiri hlutans í fjárlaganefnd. Ég hef þvert á móti átt mjög gott samstarf við nefndina.

Það verður hins vegar að segjast alveg eins og er, og ég get talað af ágætisreynslu sem fyrrverandi fjárlaganefndarmaður í heilt kjörtímabil, að stjórnkerfið og kannski sérstaklega fjármálaráðuneytið er í ákveðinni yfirburðastöðu þegar kemur að því að taka saman áhrif af breytingum sem er verið að velta vöngum yfir á fjárlagagerðinni í heild sinni. Eftir að tillögur okkar voru kynntar fyrir nefndinni upphófst nokkurra daga vinna sem fólst meðal annars í því að vinna með hugmyndir nefndarinnar um frekara aðhald.

Varðandi aðhald á aðalskrifstofum ráðuneytanna verður að hafa í huga að það kemur til viðbótar því aðhaldi sem þegar hafði verið kynnt með 1,5% aðhaldskröfu sem fylgdi fjárlagafrumvarpinu frá því í sumar. (Gripið fram í.) Ég kannast ekki við (Forseti hringir.) að á milli okkar hafi farið hugmyndir um hækkun veiðigjalda (Forseti hringir.) sem hafi verið hafnað einhvers staðar í ferlinu. (Forseti hringir.) Ég átti einfaldlega gott samstarf við nefndina. Ég tel að niðurstaðan hafi verið farsæl, (Forseti hringir.) þ.e. aukinn sparnaður en líka aukin framlög til nýrra mála.