143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil óska hv. formanni fjárlaganefndar til hamingju með að flytja hér nefndarálit til 2. umr. Ég verð að viðurkenna að manni bregður við þegar lagt er út í faglega og málefnalega umræðu sem á eftir að standa í einhverja daga með þeim orðum að hér hafi verið hömlulaus útgjöld á síðustu fjórum árum — hömlulaus útgjöld — þegar farið hefur verið úr 14% halla á landsframleiðslu niður í 1%. Talað er um að menn hafi tekið við villandi búi, hvað sem það þýðir, að tekjuáætlun á þessu ári hafi verið byggð á lofti og verið innihaldslaus með öllu, eins og hér er sagt. Ég verð að biðjast undan svona málflutningi í sambandi við fjárlög. Það að beitt hafi verið flötum niðurskurði virðist vera eins konar mantra þegar menn eru að fara í gegnum einstaka þætti og orð eins og að „fresta tækjakaupum“ eru notuð þegar það hefur orðið aukning — ekki nema hv. þingmaður hafi verið að tala um ástandið fyrir síðustu ríkisstjórn?

Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja um. Í fyrsta lagi langar mig að heyra frá hv. formanni fjárlaganefndar: Hvað telur hann að sé eðlilegt hlutfall samneyslu í þjóðfélagi eins og á Íslandi af landsframleiðslu? Á Norðurlöndunum er það í kringum 48%, á Íslandi er það dottið niður í 45%, ef ég veit rétt, er einhvers staðar í kringum það. Í Bretlandi er það komið niður í 40%, enda orðið einkarekstrarsamfélag. Þetta er mismunurinn á velferðarsamfélögum og öðrum. Mig langar að heyra skoðun hv. formanns á þessu.

Svo langar mig að spyrja um heilbrigðismálin. Í fyrsta lagi eru sumar stofnanir úti á landi sem lækka í fjárlögunum; Heilbrigðisstofnun Vesturlands lækkar um 10 millj. kr. Eru einhver rök eða ástæða fyrir því? Hvernig verður farið með hallann á Landspítalanum sem er 1,5–1,8 milljarða í halla. Það á að bæta við 1.690 þúsund. Hvernig verður farið með það sem var áður? Er þetta til að borga niður hallann? Eiga þeir að mæta þessu á mörgum árum til viðbótar þeim 3 milljörðum sem voru (Forseti hringir.) á Landspítalanum áður en við tókum við?