143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur ekki heyrt um stað sem heitir Bakki við Húsavík. Það er rétt að segja henni frá því að þar stendur til að byggja, reyndar ekki stóriðju að sögn formanns VG heldur meðalstóriðju, en er býsna stórkarlaleg framkvæmd og kostar ríkissjóð í bráð og lengd allnokkra milljarða að koma af stað og veitir háskalegt fordæmi þeim sem á eftir koma og vilja fá „Bakkadíl“ eins og aðrir, bara til að benda á það.

En sú EBITDA sem hv. þingmaður er að tala um er EBITDA ársins í fyrra, en hún var að tala um að fram undan væri gósentíð í sjávarútvegi árið 2014 og 2015. Ég ítreka spurningu mína um það hvað hv. þingmaður veit um þróun í sjávarútvegi árin 2014 og 2015 sem við hin vitum ekki.