143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Mig langar að segja í upphafi að það hefur verið ánægjulegt að heyra þann mikla samhljóm sem ríkir hér í þingsalnum varðandi það markmið að skila hallalausum fjárlögum. Ég held að fulltrúar úr öllum flokkum hafi lýst því yfir á einn eða annan hátt, bæði í umræðunni hér í dag og í umræðum um fjáraukann fyrr í vikunni. Það er frábært að við getum verið samstiga í því en við erum kannski ekki alveg sammála um hvaða leið eigi að fara til að ná markmiðinu.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að meginmarkmið í ríkisfjármálum hljóti að vera að stöðva skuldaaukningu ríkissjóðs og mynda rekstrarafgang þannig að við getum farið að greiða niður skuldir. Þetta er auðvitað það sem við hljótum öll að stefna að vegna þess að við vitum að það gengur ekki til lengdar að taka lán fyrir verkefnum sem okkur þykir gott og nauðsynlegt að fara í. Þess vegna erum við öll væntanlega á þessari skoðun.

Mig langar líka að vekja athygli á því að fram hefur farið mikil umræða og vinna í kringum það að ná betri afkomu á rekstri ríkissjóðs með því að hagræða í þeim verkefnum sem ríkið hefur verið að taka að sér og sinna á undanförnum árum. Þetta er mikilvæg vinna. Hún var unnin í tíð fyrri ríkisstjórnar og jafnframt í tíð þeirrar sem nú starfar. Það er nauðsynlegt, þegar við förum með skattfé almennings, að við höldum vel utan um það, reynum að fá sem mesta og besta þjónustu fyrir það fjármagn sem við eyðum í verkefnin og reynum að stilla hlutunum þannig upp að þeir skili jafnframt árangri og séu gerðir á hagkvæman hátt. Þessi vinna mun standa yfir allt þetta kjörtímabil og ég hlakka til að fá að fylgjast með því og taka þátt í því að vinna þau verkefni öll sömul sem munu að sjálfsögðu á einhvern hátt lita fjárlagagerðina á næstu árum.

Ég er varamaður í fjárlaganefnd og átti kost á því að koma aðeins inn í vinnu nefndarinnar og hafði af því mikið gaman. Ég lærði margt af félögum mínum þar, hvort sem um var að ræða stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga. Það er gott fólk sem skipar nefndina og allir vinna þar af heilindum. Mér fannst mjög áhugavert að finna þann anda í nefndinni að menn spyrðu spurninga varðandi útgjöldin. Oft hefur maður haft það á tilfinningunni að fjárlaganefnd sé meira í því að sjá hvar hægt er að setja meira fjármagn í ný verkefni frekar en reyna að vera í hagræðingaraðgerðum. Ég tel að þetta sé svolítil nýbreytni hvað varðar fjárlaganefndina og ég fagna henni vegna þess að þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd hljóta auðvitað að gæta aðhalds og spyrja gagnrýninna spurninga þegar menn leggja fram útgjaldatillögur sama úr hvaða flokki þeir koma.

Mig langaði í örfáum orðum að fara yfir þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur hér fram og mun stærsti hluti ræðu minnar snúast um heilbrigðismálin. Við sjáum í útgjaldatillögunum — það er svolítið flókið að lesa úr þessu, og til mín hafa komið nýir þingmenn, þegar þessu er skipt í marga liði. Ég ætla að reyna að fara aðeins yfir þetta og gefa svolítið yfirlit yfir það hvað það er nákvæmlega sem verið er að breyta. En eins og fram hefur komið leggjum við fram tillögur um að 4,1 milljarði kr., eða 4.100 millj. kr., verði varið til viðbótar í heilbrigðismálin. Þetta eru miklir peningar en sú leið hefur verið farin að skera niður á móti, hagræða á móti, þannig að við getum enn lagt fram hallalaus fjárlög og vonandi samþykkt þau í gegnum þingið og það er frábært.

Þessi 4,1 milljarður skiptist á þær stofnanir sem við rekum. Í þessum tillögum birtist sú stefnumótun og forgangsröðun, sem stjórnarflokkarnir lofuðu í kosningabaráttunni, að horfa meira til heilbrigðiskerfisins, við sjáum það hér. Að sjálfsögðu þurftu að koma til aðhaldskröfur á móti og þar er kannski sú stærsta að 5% aðhaldskrafa er gerð á ráðuneyti.

En mig langar áður en ég fer inn í heilbrigðiskaflann að minnast á örfá atriði. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að bæta 16 millj. kr. við það fjármagn sem embætti forseta Íslands hefur til umráða. Ég heyrði það í umræðunni um fjáraukann, þar sem jafnframt var gert ráð fyrir lágu framlagi til viðbótar í forsetaembættið, að menn voru duglegir við að fetta fingur út í það hér í ræðustól. Mig langar bara að lýsa því yfir af því tilefni að ég tel að það séu fáar stofnanir eða skrifstofur eða batterí sem eru á fjárlögum sem hafa þróast með þeim hætti sem embætti forseta Íslands hefur gert en þar ku vera sami starfsmannafjöldi og 1990. Mér finnst það mjög athyglisverð staðreynd og greinilegt að menn þar á bæ halda vel utan um sín verkefni og hafa ekki farið í mikla útrás eða útþenslu á öllum þeim árum sem liðin eru frá árinu 1990. Mig langar að hrósa embætti forseta Íslands fyrir þessa stefnu og aðhaldssemi.

Mig langar jafnframt að minnast á tvær tillögur sem gefur að líta á bls. 7. Það er annars vegar tillaga er varðar Menntaskólann í Reykjavík og hefur fjárlaganúmerið 02-318, tillaga um 47 millj. kr. tímabundna millifærslu af ónýttum heimildum til Menntaskólans. Við höfum heyrt mikla umræðu og fengið á fund okkar í allsherjar- og menntamálanefnd gesti, nemendur úr skólanum, sem hafa miklar áhyggjur af framtíð skólans. Það er alveg ljóst að rekstrarlíkanið sem framhaldsskólakerfið er í býður ekki upp á að færa meira fé til Menntaskólans í Reykjavík, ekki nema breytt verði þeim forsendum sem skólanum er stillt upp eftir í því kerfi. Hér er því um að ræða framlag vegna framkvæmda þannig að það komi fram.

Næsti liður á eftir varðar Fjölbrautaskóla Suðurlands. Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi hafa á undanförnum árum verið að safna fjármagni til að geta lagt fram sitt 40% mótframlag inn í þessa nýbyggingu en um er að ræða verkmenntahús við Fjölbrautaskóla Suðurlands, gríðarlega mikilvægt verkefni. Hér er gerð tillaga um að 100 millj. kr. fari þar inn. Sveitarfélögin hafa síðan safnað saman mótframlagi sínu að fullu þannig að hægt ætti að vera að fara af stað með það verkefni. Hugmyndasamkeppni varðandi bygginguna fór fram og búið er að velja það útlit sem best þótti. Það var gríðarlega skemmtileg samkoma sem okkur þingmönnum kjördæmisins var boðið á á sínum tíma.

Herra forseti. Þá ætla ég að fara yfir í heilbrigðismálin, ég held að mér veiti ekkert af tímanum í það. Fyrst vil ég þó nefna að gert var ráð fyrir að 50 millj. kr. renni af liðnum Fangelsisbyggingar til að efla öryggismál í fangelsum og geri ég þá ráð fyrir að við séum þar að tala um fangelsið á Litla-Hrauni. Ég sé þetta meðan ég fletti hérna yfir. — En fyrsta af heilbrigðisstofnunum ber að nefna Sjúkrahúsið á Akureyri. Hér er gert ráð fyrir 200 millj. kr. hækkun á rekstrarheimild sjúkrahússins, þetta er á bls. 27 fyrir þá sem vilja fylgjast með tölunum í nefndarálitinu. Gert er ráð fyrir 123 millj. kr. varanlegri hækkun á framlögum til sjúkrahússins umfram venjubundnar launa- og verðlagshækkanir. Einnig er gert ráð fyrir því í tveimur öðrum tillögum að fjárheimildir til viðhalds og tækjakaupa hjá sjúkrahúsinu hækki samanlagt um 334 millj. kr. Að þessum framlögum öllum meðtöldum eru framlög til sjúkrahússins samanlagt aukin um 667 millj. kr. eða sem svarar til 12% af fjárveitingu í fjárlögunum sem komu fyrir þingið fyrr í vetur, og frumvarpinu sjálfu.

Gert er ráð fyrir að rekstrarheimild Landspítalans hækki varanlega um 1 milljarð og 690 millj. kr. eða 3,9% hækkun á brúttórekstrarfjárheimild spítalans. Í tveimur tillögum er lagt til að fjárveitingar til viðhalds og tækjakaupa hjá spítalanum hækki samtals um 1,3 milljarða kr. Samtals eru þetta 3,9 milljarðar kr. eða um 10% af fjárveitingu spítalans í fjárlögum fyrir árið 2013.

Þá er hér liður er varðar psoriasis-húðmeðferðir en þeir sem eiga við þann sjúkdóm að stríða hafa, frá því að ég byrjaði af illri nauðsyn að fylgjast með því, notið þess að geta farið í meðferðir í Bláa lóninu. Hér er gert ráð fyrir tímabundnu framlagi til að endurnýja samning við Bláa lónið hf. vegna psoriasis-meðferðar.

Þá komum við að lið á bls. 31 sem heitir Öldrunarstofnanir, almennt. Hér er gert ráð fyrir að eftir ákvörðun Alþingis verði 200 millj. kr. veitt í tímabundið eins árs verkefni til að bregðast við brýnum staðbundnum vanda þar sem skortir á að nægilega mörg hjúkrunarrými séu til staðar. Ekki er gert ráð fyrir að farið verði í að byggja nýja byggingu eða ný heimili heldur að við nýtum betur þau heimili og þau rými sem þegar eru til staðar. Á mörgum hjúkrunar- og dvalarheimilum sem rekin eru í dag eru laus herbergi eða vilji til þess að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými, sameina tvö dvalarrými í eitt hjúkrunarrými, koma á fót hvíldarinnlagnarrýmum o.s.frv. Í þetta verkefni eru 200 millj. kr. en ég hef haft þá sýn varðandi þessi hjúkrunarheimilismál öll að við þurfum að gera betri áætlun um það hvað við ætlum að gera. Þjóðin er að eldast og við því þarf að bregðast. Við þurfum að hugsa um hvað við ætlum að gera til framtíðar.

Við þingmenn eyðum miklum tíma hér í þinginu í að gera alls kyns áætlanir er varða samgöngumál. Hér eru bæði til skammtíma- og langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu samgöngumannvirkja en við eigum ekki slíkar áætlanir hvað varðar heilbrigðismálin. Ég tel nauðsynlegt að menn átti sig á því hvar þörfin er og hafi einhverja áætlun um það hvernig staðið skuli að því að halda utan um þetta stóra verkefni þegar þjóðin eldist hratt. Ég held að það væri best gert með þessum hætti, þ.e. að ráðuneytið safni saman þessum upplýsingum og komi fram þegar það er tilbúið með áætlun sem fari hér í gegnum þingið. Ég tel að það sé framtíðin og ég vona svo sannarlega að þessi hugmynd líti dagsins ljós.

Maður hefur haft það á tilfinningunni hingað til, og ég er ekki að segja að það hafi verið hjá síðustu ríkisstjórn eingöngu eða þarsíðustu ríkisstjórn eingöngu, heldur bara á þeim árum sem ég hef verið að fylgjast með þessum málum, að það hafi verið svolítið tilviljunarkennt hvar hefur verið byggt upp. Það á auðvitað ekki að vera þannig ef við ætlum að fara vel með opinbert fjármagn. En þetta er tímabundin heimild til eins árs og í tillögunni kemur fram að á vegum ráðuneytisins sé unnið að nánari tillögugerð með skiptingu framlagsins á einstök heimili ásamt þessari langtímaáætlun sem ég var að tala um allt til ársins 2030.

Þá er hér næsti liður er varðar Náttúrulækningafélag Íslands. Þar er gerð tillaga um 27 millj. kr. tímabundna hækkun á liðnum til mótvægis við þá aðhaldskröfu sem gerð var í fjárlagafrumvarpinu. Nú ætlaði ég samhliða útgjaldaaukningunni að vitna í frumvarpið sjálft um hver aðhaldskrafan var í frumvarpinu, ég biðst afsökunar á að ég gleymdi því varðandi þær stofnanir sem ég hef þegar minnst á en mun reyna að gera það ef minni mitt brestur ekki í framhaldinu.

Við komum þá að Heilbrigðisstofnun Vesturlands en í fjárlagafrumvarpinu sjálfu er gert ráð fyrir að 43,8 millj. kr. lækkun verði til sjúkrasviðs stofnunarinnar. Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir 27,2 millj. kr. hækkun á sértekjum stofnunarinnar. Þetta er það sem birtist okkur í frumvarpinu. Í breytingartillögum meiri hlutans kemur fram tillaga um 15 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar og 20 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrarsvið stofnunarinnar á sjúkrasviði, samtals eru það 35 millj. kr.

Varðandi Heilbrigðisstofnun Vestfjarða — nú verð ég að notast við þau nýju nöfn sem eru í fjárlagafrumvarpinu vegna þess að gert er ráð fyrir sameiningum og gert var ráð fyrir því í frumvarpinu sjálfu að það kæmi fram við 2. umr. Þar er gert ráð fyrir að heilsugæslusviðið fái 13 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn sinn og jafnframt er gert ráð fyrir 17 millj. kr. framlagi til að styrkja sjúkrasviðið. Það eru þá samtals 30 millj. kr. og ef við skoðum þær lækkanir sem lagðar voru til í frumvarpinu þá var á Heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði gert ráð fyrir 0,8 millj. kr. lækkun vegna sameiningar og á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða lögð til 2 millj. kr. lækkun vegna sameiningar þannig að það eru í raun þessar tölur sem menn þurfa að lesa saman.

Jafnframt er hér tillaga varðandi Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þar er gert ráð fyrir 45 millj. kr. hækkun í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar til að styrkja rekstrargrunn heilsugæslusviðs stofnunarinnar og 55 millj. kr. framlagi til að styrkja rekstrargrunn sjúkrasviðsins á þeirri sömu stofnun. Samtals eru það — nú er ég komin á bls. 36 fyrir þá sem eru að fylgjast með — á þessi tvö svið stofnunarinnar 100 millj. kr.

Varðandi Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem er á bls. 38, er gert ráð fyrir eftir ákvörðun Alþingis að 40 millj. kr. komi til að styrkja heilsugæslusviðið en 20 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar. Það eru þá samtals 60 millj. kr. en á Heilbrigðisstofnun Austurlands var gert ráð fyrir 36,2 millj. kr. lækkun að raungildi frá fjárlögum þessa árs í frumvarpinu sjálfu, hún stendur óbreytt.

Á bls. 39 er gerð grein fyrir tillögum meiri hlutans um 120 millj. kr. framlag, þ.e. 65 millj. kr. á heilsugæslusviði og 55 millj. kr. á sjúkrasviði, til að styrkja rekstrargrunn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þar er ætlunin að taka saman í eina stofnun þær stofnanir sem eru á Suðurlandi, þ.e. Vestmannaeyjar, Hornafjörð og Selfoss, heilbrigðisstofnunina þar, en samtalan er 120 millj. kr. Í frumvarpinu sjálfu var gert ráð fyrir að Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum þyrfti að sæta 85,3 millj. kr. lækkun á liðnum. Gerð var skýrsla af hálfu Ríkisendurskoðunar um rekstrarafkomu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, skýrsla Boston Consulting Group og úttekt starfshóps sem greindi reksturinn. Þess vegna var þessi tillaga lögð fram um 85,3 millj. kr. lækkun sem er þá gert ráð fyrir að gangi til baka með þessari tillögu hér en heildarsumman er 120 millj. kr. eins og áður sagði.

Þá er það Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar er ekki gert ráð fyrir sameiningu en í frumvarpinu var gert ráð fyrir lækkun upp á 4,4 millj. kr. vegna hagræðingar. Hér er gert ráð fyrir að 40 millj. kr. framlag komi til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar á heilsugæslusviði en 20 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunninn á sjúkrasviði.

Þetta er nú í stuttu og einföldu máli yfirlit yfir aukin útgjöld hvað varðar heilbrigðisþjónustuna sem áhersla var lögð á að koma fram með á milli umræðna.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þá stuttu stund sem ég fékk að eyða með fjárlaganefndarmönnum. Það var sérlega skemmtilegt og ég hvet menn þar á bæ til dáða í því að vinna vel saman, takast á, menn eru ekki sammála um alla hluti. Engu að síður er nauðsynlegt að spyrja áfram gagnrýninna spurninga og hafa skoðun á því hvernig við ætlum að sinna þessum málum.

Ég fagna jafnframt þeirri umræðu sem fram hefur farið varðandi gerð nýrra fjárreiðulaga. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við höldum betur utan um það hvernig við ætlum að setja fjárlög fyrir okkur. Ég tel að þar sé mörgu ábótavant og fjárlaganefnd hefur, eins og fjárlaganefndir síðustu ára, verið á fullu í þessari umræðu. Þegar fjárreiðufrumvarpið nýja kemur fram vonast ég svo sannarlega til þess að sem flestir þingmenn blandi sér í þá umræðu og setji sig inn í það hvernig best er að gera þetta.

Síðan get ég ekki annað en minnst ágæts félaga míns Ásbjörns Óttarssonar, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, og talað aðeins um markaðar tekjur. Menn eru enn að ræða um markaðar tekjur í fjárlaganefnd. Þáverandi þingmaður, Ásbjörn Óttarsson, hafði mikinn áhuga á að breyta því fyrirkomulagi er varðar markaðar tekjur en þannig er að ýmsar stofnanir ríkisins hafa ákveðnar tekjur og eru þar með varðar fyrir því að verið sé að horfa á þær í heildarmyndinni þegar verið er að breyta framlögum innan stofnananna. Ég vonast til þess að þetta allt saman verði endurskoðað á næsta ári, vonandi á kjörtímabilinu.

Ég get ekki annað, þar sem ég er varamaður, en hvatt nefndina til dáða og vonast til að frumvarp varðandi mörkuðu tekjurnar komi fram á næsta ári.