143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki í þeim hópi, eða ég vona ekki, sem stendur hér og talar alltaf um að síðasta ríkisstjórn hafi ekki gert neitt vel og ekkert gott, það er ekki þannig. Auðvitað lögðu menn sig fram en við vorum ekki sammála því hvernig átti að gera hlutina. Ætlunin með fjárlögin 2013, síðustu fjárlög sem síðasta ríkisstjórn bar ábyrgð á — þau voru lögð fram og gert ráð fyrir, að mig minnir, 3 milljarða halla. Raunin varð allt önnur og þegar við vorum að tala um fjáraukalögin fyrr í vikunni er rétt að ný ríkisstjórn tók við á miðju ári og við leggjum til ákveðnar breytingar, m.a. varðandi veiðigjöldin sem nema 3 milljörðum. Skatturinn á ferðaþjónustuna nam 0,5 milljörðum þannig að þar eru 3,5 í lækkun, ef þið skiljið mig, en samt er hallinn 19,8, þrátt fyrir að við höfum farið í að skera niður fullt af verkefnum. Það var hundleiðinlegt að gera það, þetta voru fín verkefni og meðal annars í okkar kjördæmi, en til að reyna að ná hallanum niður á nokkuð viðráðanlegt plan var farið í að skera verkefnin niður, vegna þess að stefnan er ekki sú sama.

Varðandi hver niðurstaðan hefði verið hefði sama ríkisstjórn verið áfram þá hefði það verið miklu meira en 3 milljarða kr. halli þótt ekki hefði verið farið í að breyta veiðigjöldunum og virðisaukaskattinum á ferðaþjónustuna vegna þess að búið var að lofa svo miklum framkvæmdum, fínum verkefnum, en við verðum auðvitað að reyna að haga okkur í rekstrinum eftir því sem við höfum efni á. Ég hef ekki þá trú að gott sé að halda áfram að taka lán til að safna meiri skuldum hjá ríkinu. Þess vegna styð ég hallalaus fjárlög núna og enn meiri afgangi þarf að skila á næstu árum vegna þess að staðan er sú að á næstu árum eru fram undan gríðarlega stórar afborganir (Forseti hringir.) af lánum okkar og þá verðum við að vera búin að ná betri tökum á rekstri ríkissjóðs.