143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar sem eru mjög fínar og ígrundaðar. Ég hef þá skoðun að hefði ég verið ein að setja þessi fjárlög og lagt þau fram í mínu nafni og staðið ein að því að koma þeim í gegnum þingið væri afgangur ríkissjóðs mun hærri. Það er mín skoðun. Það er það sem ég hefði viljað. En maður fær ekki alltaf allt sem maður vill.

Ástæðan er sú að ég tel mjög mikilvægt að við förum að greiða niður skuldir. Þegar fjárlögin eru skoðuð og þær gríðarlegu fjárhæðir sem fara í að greiða vexti af skuldum ríkissjóðs fær maður í magann, af því að það er svo blóðugt að vera að greiða alla þessa peninga í vaxtagjöld. Var það ekki hv. þm. Pétur H. Blöndal sem lýsti því yfir í dag að fyrir upphæðina væri hægt væri að byggja nýjan landspítala? Ég hef alltaf viljað skila hallalausum fjárlögum í ár og hefði viljað hafa afganginn enn meiri en niðurstaðan verður en mun samt styðja þessi fjárlög vegna þess að við erum svo sannarlega á réttri leið.