143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir yfirgripsmikla ræðu um mörg mikilvæg efni fjárlagafrumvarpsins. Hún kom inn á marga þætti sem hefði verið áhugavert að eiga orðastað við hana um. Ég held að ég takmarki mig við Ríkisútvarpið sem hún talaði talsvert um. Hv. þingmaður sagði að hún ætlaði ekki að fara út í það nákvæmlega hvaða aðferðir hefðu verið viðhafðar við að segja upp fólki. Sjálfur er ég dálítið upptekinn af því. Mér finnst satt að segja aðferðirnar niðurlægjandi fyrir fólk sem er búið að vinna áratugum saman. Maður hefur skilning á því að stundum þarf að segja upp fólki, en þegar um hópuppsagnir er að ræða finnst manni í raun og veru engin aðferð sæmandi önnur en sú að starfsaldurinn sé látinn ráða í öllum meginatriðum. Sú aðferð sem bætir gráu ofan á svart er að fólkinu er sagt að hætta samstundis. Það er eins og það hafi gerst sekt um eitthvað, það má ekki vinna uppsagnarfrestinn. Maður hlýtur að velta fyrir sér af hverju það sé. Fólk sem var jafnvel búið að búa til þætti mátti ekki einu sinni senda þá út. Og það var bara spiluð sorgartónlist í staðinn í Ríkisútvarpinu.

Hvað þykir hv. þingmanni um vinnulag af þessum toga? Ég vil líka spyrja hvort þær yfirlýsingar sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hafði látið hafa eftir sér fyrr á árinu í garð Ríkisútvarpsins kunni að skýra þá meðferð sem Ríkisútvarpið hefur orðið fyrir í þessari fjárlagavinnu, m.a. með viðbótarniðurskurði núna upp á 215 milljónir í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar.