143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Hv. þingmaður nefndi tillögur um tekjuskattslækkanir á miðþrepi og ég vildi inna þingmanninn eftir sanngirnissjónarmiðunum í því.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að skattbyrði alls almennings hefur aukist nokkuð í kjölfar hrunsins sem er ekki síst tilfinnanlegt fyrir þá sem lægri tekjur hafa og kannski meðaltekjur. Útfærslan á þessari tekjuskattslækkun virðist vera alveg sérstaklega sniðin að okkur alþingismönnum. Þeir bera mest úr býtum sem eru með þingfararkaup eða þaðan af hærri laun. Mér reiknast til að þingfararkaupið fái á fjórða þúsund krónur í tekjuskattslækkun út úr þessu á mánuði en manneskja með 300 þús. kr. á mánuði fær ekki nema kannski um 400 kr. Við í þessum sal fáum kannski tífalt meira en venjulegt vinnandi fólk, starfsfólk á hjúkrunarheimilum eða ýmislegt fólk sem sinnir störfum sem gefa af sér meðaltekjur og lágar tekjur. Yfir árið getur þetta orðið umtalsvert. Þá skiptir þetta tugum þúsunda fyrir okkur en þeir sem búa við miklu lakari kjör fá aðeins örfáar þúsundir. Í tilfelli hjóna skiptir þetta enn hærri fjárhæðum.

Ég hef sérstaklega áhyggjur af venjulegu vinnandi fólki á lágum launum sem uppsker ekki neitt úr þessu. Það er rétt að öryrkjar og aldraðir fá sínar hækkanir og afnám á skerðingu, en finnst hv. þingmanni ekki röng forgangsröðun að skilja eftir það fólk sem vinnur á lægstu laununum og síðan fólk sem er með meðaltekjur, 300–400 þús. kr. á mánuði, fyrir sín störf og fær nánast ekkert (Forseti hringir.) út úr þessu?