143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

kjarasamningar og gjaldskrárhækkanir.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar kemur að launaskriði sem hefur orðið vart við hjá einstaka stéttum á undanförnum árum. Það er ekki til eftirbreytni hjá fyrirtækjunum í landinu að taka ákveðna hópa út fyrir sviga og láta launaþróun þeirra vera með einhverjum allt öðrum hætti en almennt er að gerast með kjör fólksins í landinu. Ég get tekið undir það, við deilum ekki um þetta.

Hins vegar varðandi heildaráhrif frumvarpsins erum við að vinda ofan af nýlegum skattahækkunum. Þeir sem eru í þeim tekjuhópi sem hv. þingmaður horfir hér sérstaklega til, fólk með í kringum 200 þús. kr. í laun, greiða eingöngu tekjuskatt í lægsta skattþrepinu. Hjá því fólki sem greiðir eingöngu tekjuskatt í lægsta þrepinu koma um 600 milljónir af þeim rúmlega 100 milljörðum sem koma inn í tekjuskatt. Þessu fólki var hlíft sérstaklega með aðgerðum fyrri ríkisstjórnar, þeir sem eru hins vegar þar fyrir ofan fengu á sig skattahækkun. Okkar tillaga er að vinda ofan af þeirri skattahækkun. Þeir sem eru einungis með um 200 þús. kr. í laun, (Forseti hringir.) sá hópur sem hv. þingmaður talar um, fá svo sannarlega engar skerðingar á sínar vaxtabætur vegna þess að við (Forseti hringir.) venjulegar kringumstæður byrja vaxtabætur ekki að skerðast fyrr en í um 580 þús. (Forseti hringir.) kr. mánaðartekjum samkvæmt okkar tillögum.