143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni sem við horfumst í augu við, við sem aðhyllumst jöfnuð og félagslegt réttlæti, því að hér erum við að sjá pólitískari fjárlög en við höfum séð, liggur mér við að segja, í annan tíma.

Mig langar til að biðja hv. þingmann að ræða þessa stöðnunartóna sem eru í fjárlagafrumvarpinu. Það hefur stundum loðað við að talað sé um að þróttur og kraftur sé í hægrinu og þar sé verið að hvetja til framkvæmda og framtíðar og atvinnusköpunar, en það er ekki laust við það þegar farið er yfir þetta fjárlagafrumvarp að maður óttist hreinlega að sá mikli niðurskurður og í raun og veru það afturhald sem endurspeglast í því valdi hreinlega samdrætti í verðmætasköpun og þar með vanda ríkissjóðs til lengri tíma.

Það hefur svo sem ekki bara borið á góma hér í þingsal heldur ekki síður úti í atvinnulífinu. Bæði Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir áhyggjum af þessu mikla samdráttaryfirbragði sem hér er lagt fram. Raunar fyndist mér fullt tilefni til að það væri metið hversu mörg störf hreinlega tapast við það fjárlagafrumvarp sem hér er lagt fram og ef það verður að lögum eins og allt stefnir í. Ef hv. þingmaður vildi velta með mér vöngum um það hvort einhver atvinnustefna sé sýnileg hér og hvort hv. þingmaður sjái einhverja framtíðarsýn yfir höfuð (Forseti hringir.) í þessu afturhaldsfrumvarpi?